Andvari - 01.01.2004, Blaðsíða 68
66
BJÖRG EINARSDÓTTIR
ANDVARI
gagnfræðaskóla og menntaskóla. Slíkt fordæmi, ef leyft yrði, hlyti að
draga dilk á eftir sér.“ Annar töluliður álitsins er á þessa leið: „Mennta-
skólarnir eiga að vera samskólar ungs fólks af báðum kynjum, og er sú
regla staðfest í nýsamþykktum lögum um menntaskóla.“ Að tillögu
nefndarinnar og samkvæmt þeim rökum, sem hún tefldi fram, var
frumvarpið fellt. Þegar Auður Auðuns rifjar upp þessa aprrldaga 1970
og þetta málefni allt, sem raunar var blásið upp langt umfram efni þess,
segir hún að fram hafi komið frá fylgjendum þess það sem mann óraði
fyrir, nefnilega um „sérstakar menntunarþarfir kvenna,“ sem áréttaði
hefðbundnar skoðanir á verkaskiptingu kynjanna. í framhaldi af þess-
um málatilbúnaði sagði Auður: „Mér kemur í hug að þegar karlar beita
sér af harðfylgi fyrir sínum skoðunum kallast þeir gjaman skörungar,
en hendi slíkt konur heita þær oft frekjur.“ A síðari tíma hafa mál
þróast svo að Kvennaskólinn er samskóli beggja kynja og hefur öðlast
réttindi til að útskrifa stúdenta.
Sorgaratburðurinn þegar Bjarni Benediktsson forsætisráðherra,
ásamt Sigríði Björnsdóttur eiginkonu sinni og Benedikt Vilmundarsyni
ungum dóttursyni þeirra, lét lífið í eldsvoða í bústað forsætisráðherra á
Þingvöllum 10. júlí 1970 snart alla djúpt - mikill harmur var kveðinn
að landsmönnum.
Eftir hið sviplega fráfall forsætisráðherra urðu þau umskipti í ríkis-
stjórn að Jóhann Hafstein, sem verið hafði dóms-, kirkjumála-, heil-
brigðis- og iðnaðarráðherra, varð forsætisráðherra. Á setningardegi
Alþingis um haustið, 10. október 1970, myndaði Jóhann Hafstein
ráðuneyti sitt og varð Auður Auðuns þar dóms- og kirkjumálaráðherra;
hún gegndi því til 14. júlí 1971 er ný ríkisstjórn settist að völdum eftir
kosningar í júní það ár.
Einhver varð til þess að spyrja Auði hvort hún hefði ekki lent í
mikilli samkeppni um ráðherrastólinn og hún svaraði: „Sjálf tók ég að
minnsta kosti ekki þátt í neinni samkeppni.“ Tvær flokkssystur Auðar
tóku hús á henni heima snemma morguninn eftir að tilkynnt var um
skipan ráðherranna og færðu henni blómvönd af tilefninu. Hún fagn-
aði þessari skipun sinni í ráðherrastarf - ekki vegna eigin frama held-
ur vegna framgangs kvenna sem í því fólst og með því væri konum
skapað fordæmi og fyrirmynd sem þær ættu fáar.
Auður taldi lærdómsríkt að koma í ríkisstjóm, að líkum væri svo
fyrir alla sem til þess eru kallaðir, enda þótt hún væri gamalreynd bæði
í flokksstarfi og þingflokki. Reynslan úr starfi borgarstjóra kom henni