Andvari - 01.01.2004, Blaðsíða 116
114
GUNNAR KARLSSON
ANDVARI
Á þessa túlkun á stefnu Jóns á Guðjón eftir að drepa síðar, að mér finnst á
fremur rýrum heimildagrunni og að mestu leyti hinum sama og Guðmundur
Hálfdanarson hafði byggt á.59 Óþarft virðist að lesa ummæli Jóns sem annað
eða meira en svolítinn pollýönnuleik. Það sem er tilfært hér að framan er til
dæmis næsta augljós tilraun til að gera það besta úr vonbrigðum þeirra félaga
með úrslit þjóðfundarins og kvíða fyrir því að eiga að he}/ja sjálfstæðisbar-
áttu í íhaldsömu andrúmslofti sjötta áratugar aldarinnar. Ég á bágt með að
ímynda mér að Guðjón hefði ályktað svona stórt af þessu ef hann hefði ekki
haft fyrir sér kenningu Guðmundar sem er fjallað um hér á undan.
Eins les ég áhrif Guðmundar Hálfdanarsonar út úr ummælum sem Guðjón
hefur um tillögu Jóns Sigurðssonar í fjárhagsnefndinni. Hann segir:
Hún er afar snjöll þó að bera megi brigður á réttmæti hennar. Við siðaskiptin hafði
konungur sölsað undir sig allar jarðir klaustra og biskupsstóla og var mikið af þeim
síðar selt. Nú vill Jón að Danir skili andvirði þessara jarða aftur til íslensku þjóðar-
innar en veikleikinn í þessari rökleiðslu er reyndar sá að kaþólska kirkjan átti eign-
irnar fyrir siðaskipti.60
En í Andvaragreininni hafði Guðmundur sagt: „Jón veltir hins vegar lítið
fyrir sér eignarrétti á jörðum konungs, sem flestar höfðu verið teknar af
kaþólsku kirkjunni við siðaskipti og hefðu því átt að teljast eign hennar frem-
ur en íslensku þjóðarinnar.“61
Loks bendir Guðjón á það sem Guðmundur hefur dregið rækilega fram,62
að Jón lagði lítið kapp á lýðréttindi þegar þau komu á dagskrá á sjöunda tug
aldarinnar, sjálfsagt til þess að fæla íhaldsama bændafulltrúa ekki frá sér.63 A
engum þessara staða vísar Guðjón þó til ummæla Guðmundar, og raunar finn
ég nafn hans alls ekki í aftanmálsgreinum bókanna, þótt bæði grein hans í
Andvara 1997 og bókin íslenska þjóðríkið séu í heimildaskrá.
Jafnvel kemur fyrir að Guðjón vísi til fræðilegrar umfjöllunar án þess að
hirða um að tilfæra hvar og hvenær hún hafi birst: „Leidd hafa verið rök að
því að Jón Sigurðsson hafi með vönduðum þingsköpum viljað efla þjóðfund-
inn þinglegu valdi svo að hann geti talist jafn að völdum danska ríkisþing-
inu.“64 Hér kemur ekki fram að Sverrir Kristjánsson mun fyrstur hafa nefnt
þetta, en Aðalgeir Kristjánsson tekið það upp síðar.65
Taka verður fram, ekki síst vegna umræðu sem hefur geisað hér að undan-
fömu um heimila og óheimila notkun á ritum annarra, að mér dettur ekki í
hug að væna Guðjón um óheiðarlega heimildanotkun. Aðferð hans er alþekkt
í alþýðlegri söguritun, og jafnvel í hinum fræðilegustu fræðiritum er engin
leið að vísa til alls sem maður notar. Hér er það einkum magn notkunar sem
skilur á milli þess sem er viðeigandi og óviðeigandi, og Guðjón er örugglega
réttu megin við þau mörk.