Tímarit lögfræðinga - 01.10.2004, Síða 112
myndast á milli EES og ESB. Hún benti á að ESB-sáttmálinn, ólíkt EES-samn-
ingnum, fæli í sér ákvæði sem hefðu í för með sér að virðisaukaskattreglur,
sambærilegar þeim íslensku, væru réttlætanlegar með tilliti til almannahags-
muna eins og þeirra að efla lesmenningu. Forsætisráðherra hélt því fram í svari
sínu að hvort sem virðisaukaskattreglum yrði breytt til samræmis við fyrirliggj-
andi tillögur fjármálaráðherra væri það alfarið sjálfstæð ákvörðun Alþingis.
Löggjafarvaldið væri eftir sem áður í höndum Alþingis. Ef Alþingi ákvæði hins
vegar að bregðast ekki við dómi EFTA-dómstólsins gætu aðrir samningsaðilar
gert verndarráðstafanir. Þó gæti ESB ekki beitt slíkum verndarráðstöfunum ef
umdeild íslensk lagaákvæði samræmdust ESB-löggjöf. Slíkt væri óhugsandi að
mati forsætisráðherra.39
2.6 Mál E-l/03 Eftirlitsstofnun EFTA gegn íslandi40
Hér er um að ræða fyrsta og eina samningsbrotamálið sem Eftirlitsstofnun
EFTA, ESA, hefur höfðað á hendur Islandi á grundvelli 31. gr. ESD-samn-
ingsins. Málið varðaði ágreining Islands og eftirlitsstofnunarinnar um það hvort
heimilt væri að EES-rétti að hafa mismunandi háa farþegaskatta á innanlands-
flug og millilandaflug. Með dómi EFTA-dómstólsins frá 12. desember 2003 var
kveðið upp úr um það að óheimilt væri að hafa mismunandi farþegaskatta eftir
því hvort flogið er með loftfari innan lands eða frá Islandi til aðildarríkja innan
hins Evrópska efnahagssvæðis.
í kjölfar dómsins lagði samgönguráðherra fram á Alþingi frumvarp til laga
um breyting á lögum um flugmálaáætlun og fjáröflun til flugmála, nr. 31/1987,
með síðari breytingum. I almennum athugasemdum greinargerðar með frum-
varpi til laganna segir að samgönguráðuneytið hafi óskað eftir sérstöku áliti
Davíðs Þórs Björgvinssonar, prófessors við Háskólann í Reykjavík, við gerð
frumvarpsins. I áliti hans sé það rakið hvað felist í dómi EFTA-dómstólsins,
dómum dómstóls EB, röksemdum í rökstuddu áliti ESA og röksemdum stofn-
unarinnar undir rekstri málsins. Höfð hafi verið hliðsjón af þessum og öðrum
ábendingum Davíðs Þórs við gerð frumvarpsins. Þá segir í athugasemdum með
1. gr. frumvarpsins að í kjölfar dóms EFTA-dómstólsins frá 12. desember 2003
sé lagt til að flugvallarskatturinn verði sá sami hvort sem flogið er innan lands
eða frá Islandi til annarra landa.41
Þessi dómur EFTA-dómstólsins leiddi eðli málsins samkvæmt ekki til
neinna viðbragða af hálfu íslenskra dómstóla, enda var ekki um ráðgefandi álit
að ræða, heldur dóm í samningsbrotamáli sem ESA höfðaði fyrir EFTA-
dómstólnum. Hins vegar hafði dómurinn þær afleiðingar í för með sér að lagt
var fram á Alþingi frumvarp til breytinga á gildandi lögum og var það gert til
þess að koma til móts við niðurstöður EFTA-dómstólsins.
39 Sjá Alþt. 2001-2002, umræður, bls. 6546-6579.
40 Mál E-l/03 Eftirlitsstofmm EFTA gegn íslenska ríkinu. Skýrsla EFTA-dómstólsins 2003, bls.
145.
41 Alþt. 2003 -2004, þskj. 1441, 947 mál.
406