Tímarit lögfræðinga - 01.10.2004, Blaðsíða 136
nr. C-70/99 Framkvæmdastjórnin gegn Portúgal45 ber með sér, þá kunna
möguleikar ríkja til að velja leiðir til að vemda lögmæta hagsmuni að hafa verið
takmarkaðir í afleiddum rétti bandalagsins þar sem gert er ráð fyrir því að
ákveðnar leiðir sér farnar í þessu skyni.
2.3 Viðbrögð íslenskra stjórnvalda við dómi EFTA-dómstólsins
Vorið 2004 samþykkti Alþingi breytingar á flugmálalögunum til að bregð-
ast við áliti EFTA-dómstólsins, sbr. lög nr. 95/2004. Samkvæmt þeim er flug-
vallaskattur nú hinn sami, 382 kr., hvort sem flogið er innanlands eða milli
landa. Aftur á móti var með lögunum ákvarðað nýtt gjald til að fjármagna
viðbótarkostnað vegna rekstrar og viðhalds alþjóðlegra varaflugvalla á íslandi.
Er gjaldið 598 kr. vegna hvers farþega sem flýgur frá Islandi til annarra landa.
I greinargerð með frumvarpinu er lögð áhersla á að varaflugvallakerfið sé
nauðsynlegt til að halda uppi áreiðanlegu og öruggu millilandaflugi og að það
endurspegli þann viðbótarkostnað sem hlýst af því að reka varaflugvellina. Þess
er getið í athugasemdum við lagafrumvarpið að við gerð frumvarpsins hafi
verið byggt á áliti Davíðs Þórs Björgvinssonar prófessors og vísað í niðurstöður
þess.46 Verður ekki lagt mat á það hér hvort þessi lög samræmist dómi EFTA-
dómstólsins.
2.4 Niðurstöður
Almennt má segja að EFTA-dómstóllinn hafi í máli þessu verið trúr þeim
skýringaraðferðum sem hann hefur byggt á í fyrri úrlausnum þar sem áhersla
hefur verið lögð á að ná markmiðum EES-samningsins. Þá er ljóst að hann
túlkar 36. gr. EES-samningsins með líkum hætti og EB-dómstóllinn hefur
túlkað 49. gr. Rs. þar sem reynt hefur á svipuð álitamál. Beitir EFTA-
dómstóllinn formlegri nálgun þar sem höfuðáhersla er lögð á að þær ráðstafanir
sem málið varðar geti hindrað þjónustufrelsi, og þar með að markmiðum innri
markaðar verði náð, en ekki á að staðreyna hvort þjónusta hafi raunverulega
verið hindruð í viðkonrandi tilviki. Þá er ljóst að minniháttarregla á ekki við
þegar lagt er mat á hvort ráðstafanir hindri þjónustufrelsi. Af þessu leiðir að
erfitt er að koma að rökum sem snúa að smæð markaðar, legu lands og fleiri
45 Sjá tilvísun í neðanmálsgrein 18.
46 Alþt. 130. löggjafarþing 2003-2004, þskj. 1441, 947. mál. Þar kemur fram að í álitinu segi:
„1. Heimilt er að leggja á farþega gjöld hvort heldur er í innanlandsflugi eða millilandaflugi til að
mæta sérstökum kostnaði sem leiðir af veitingu þjónustu sem þeir njóta sem flugfarþegar, þannig
að samræmist 36. gr. EES-samningsins. Skilyrði er að gjaldið sé lagt á þá sem njóta þjónustunnar
og samhengi sé milli kostnaðar við þjónustuna og fjárhæðar gjaldsins. 2. Einnig er heimilt að hafa
gjöldin mismunandi há eftir því hvort um innanlandsflug eða millilandaflug er að ræða, enda sé
samsvörun milli mismunandi gjalda og mismunandi þjónustu sem þeir njóta sem gjaldið greiða og
mismunurinn sé hóflegur og í samræmi við muninn á þeim kostnaði sem hlýst af því að veita
þjónustuna. Af þessu meginsjónarmiði tel ég leiða að heimilt ætti að vera að leggja tiltekin gjöld á
þá sem ferðast í millilandaflugi sem ekki eru lögð á farþega í innanlandsflugi, enda verði farþegar
í millilandaflugi aðnjótandi þjónustu sem þeir njóta ekki er ferðast í innanlandsflugi“.
430