Tímarit lögfræðinga - 01.10.2004, Side 144
það hvort 112. gr. EES-samningsins um öryggisráðstafanir taki til fisks og
sjávarafurða.57
Enda þótt bæði íslenska ríkið og ESA virðist sammála um að fiskur falli
ekki undir almennt gildissvið EES-samningsins eru þessir aðilar ekki sammála
um áhrif þessa á valdsvið EFTA-dómstólsins. Þrír túlkunarmöguleikar virðast
hafa verið settir fram um það efni í því máli sem hér er til umfjöllunar:
1) Af máli framkvæmdastjómarinnar virðist mega ráða að EFTA-dómstóllinn hafi
lögsögu til að veita ráðgefandi álit um öll ákvæði bókunar 9 EES.
2) ESA heldur því fram að EFTA-dómstóllinn hafi lögsögu til að veita ráðgefandi
álit um ákvæði bókunar 9 EES nema annað megi sérstaklega ráða af ákvæðum
hennar.
3) Islenska ríkið álítur að bókun 9 EES sé í heild sinni undanskilin lögsögu EFTA-
dómstólsins.
í málinu nr. E-2/94 Scottish Salmon var ákvörðun ESA ógilt á þeim
grundvelli að fyrir henni hefði skort fullnægjandi rökstuðning. Lagði EFTA-
dómstóllinn því ekki mat á lögsögu ESA til að fjalla um bókun 9 EES.58 I því
máli sem hér er til umfjöllunar tók dómstóllinn hins vegar afstöðu til lögsögu
sinnar. Er í dóminum fyrst fjallað almennt um valdheimildir dómstólsins sam-
kvæmt 34. gr. stofnanasamningsins. Segir orðrétt í dóminum:
Samkvæmt 1. mgr. 34. gr. stofnanasamningsins hefur EFTA-dómstóllinn lögsögu til
að gefa ráðgefandi álit varðandi „túlkun á EES-samningnum“. Samkvæmt a-lið 1.
gr. stofnanasamningsins felur hugtakið „EES-samningur“ í sér „meginmál EES-
samningsins, bókanir og viðauka við hann, auk þeirra gerða sem þar er vísað til“.
Þessi skilgreining er í samræmi við skilgreiningu a-liðar 2. gr. EES. Samkvæmt 119.
gr. EES skulu viðaukar og bókanir við EES-samninginn „vera óaðskiljanlegur hluti“
hans. Af þessum ákvæðum er ljóst, að EFTA-dómstóllinn hefur samkvæmt 34. gr.
stofnanasamningsins, lögsögu til að túlka bókanir við EES-samninginn, nema aðra
niðurstöðu megi augljóslega leiða af ákvæðum samningsins.59
57 Sjá Davíð Þór Björgvinsson og Dóra Guðmundsdóttir: „Starfsemi EFTA-dómstólsins“.
Tímarit lögfræðinga. 4. hefti, desember 1996, bls. 162-163. Um skoðanir fræðimanna um þetta efni
má vísa til Stefáns Más Stefánssonar, sbr. neðanmálsgrein 34, bls. 412 og 828-830. Kemst hann
m.a. að þeirri niðurstöðu að 112. gr. EES-samningsins geti átt við um fisk og sjávarafurðir. Sjá
einnig: T. Blanchet o.fl., sbr. neðanmálsgrein 55, bls. 45. Þar virðist dregin sú ályktun að gagn-
álykta megi frá 3. mgr. 8. gr. EES; P. 0rebech: GATT-rett eller EF-rett? Studier i GATT-rett og EF-
rett særlig med henblikk pá fiskeri- og landbruksvarer, bls. 135. Þar kemur fram að um viðskipti
með fisk gildi aðeins reglur bókunar 9. Er ályktunin dregin af orðan 3. mgr. 8. gr. og 20. gr. EES-
samningsins. Einnig er vísað til forsögu samningsins, þ.e. hvemig orðalag hans þróaðist í samn-
ingaviðræðunum, en á einum tíma voru samningsdrögin orðuð með þeim hætti að reglur EES-
samningsins ættu við um fisk nema annað væri sérstaklega tekið fram.
58 Þess má geta Stefán Már Stefánsson telur að í dóminum komi fram greinilegir fyrirvarar sem
geti varðað réttmæti umræddrar ákvörðunar ESA og vísar í því sambandi til 29. málsgreinar
dómsins. Sjá Stefán Már Stefánsson: Sbr. neðanmálsgrein 34, bls. 818.
59 Sjá 27. málsgrein.
438