Hugur - 01.01.2006, Side 62
6o
Jón A. Kalmansson
mitt vegna þess að þeir hafa enga reynslu af þeim nöturlega veruleika sem að
baki þeim býr. Lykilatriði þessarar firringar, samkvæmt Orwell, er skortur á
reynslu og nálægð — að vera sú manngerð sem ávallt er fjarstödd þegar tekið
er í gikkinn — og tilheyrandi máttleysi ímyndunaraflsins. Þar með er þó ekki
öll sagan sögð. Firringin er líka fólgin í því að fólk missi tökin á grundvallar-
hugtökum, verði viðskila við þann grunnskilning sem þó er sú forsenda sem
samfélag þess og það sjálft gengur út frá í daglegu lífi. Þess vegna verður morð
í augum þeirra ekkert annað og meira en orð, þ.e. í mesta lagi innantómt
tákn, varla meira en hljóð eða stafir á blaði, en ekki miskunnarlaus veruleiki,
„óhugnaður, hatur, kveinandi ættingjar, blóð, óþefiir" og svo framvegis. Að
skilja „átakanlega sérstöðu mannlegs h'fs“, svo notað sé orðalag Coru Dia-
mond, er meðal annars að skilja að orðið „morð“ þýðir allt þetta og ótalmargt
fleira. Og það er líka að skilja hve ankannaleg samsetning orðasambandið
„nauðsynlegt morð“ er og til hve nöturlegs veruleika það vísar.
I grein sinni um klípusögur gerir Kristján sér far um að sannfæra lesendur
sína um að einmitt hans siðferðilega afstaða sé sú raunsæja og mannlega.
Hann útskýrir meðal annars hvernig nytjahyggjumaðurinn „þjáist, eins og
við þjáumst öll þegar við neyðumst til að taka harmræna ákvörðun“.15 Með
því vakir vafalaust fyrir honum að verjast þeirri ásökun að túlkun hans beri
vott um firringu í Hkingu við þá sem Orwell gerði að umtalsefni fyrir meira
en hálfri öld. Sérhver lesandi verður að gera upp við sig hvort Kristjáni tekst
þetta. En það er áleitin spurning í mínum huga hvort sannfærður nytja-
stefnumaður af því tagi sem Kristján lýsir „þjáist eins og við þjáumst öll þeg-
ar við neyðumst til að taka harmræna ákvörðun". Því það hvaða ákvarðanir
við tökum, og hvaða merkingu við leggjum í ákvarðanir okkar - til dæmis
hvort og í hvaða skilningi þær eru harmrænar - og hver viðbrögð okkar eru
við þeim — til dæmis hvort og hvernig þær valda okkur þjáningu - er undir
því komið hvernig við skiljum aðstæður okkar, en það er svo aftur háð því
hvaða merkingu við leggjum í hugtök á borð við mannlegt líf, ábyrgð á ná-
unganum, réttlæti, miskunn og svo framvegis. Sé sýn manns á mannlífið
staðfastlega sú að mönnum sé í vissum tilvikum rétt og skylt að drepa saklaust
fólk vegna heildarhagsmuna hlýtur hann að bregðast við aðstæðum á annan
hátt og leggja aðra merkingu í slíkan verknað en maður sem til dæmis trúir
því að betra sé að þola órétt en að stytta saklausum manni aldur. Hið harm-
ræna í manndrápi hefiir ólíka merkingu fyrir þessum tveimur mönnum. Þar
með er ekki sagt að nytjahyggjumaðurinn sé ómannlegur og finni ekki til
þegar hann gerir það sem hann telur rétt í slíkum tilfellum. Við getum bara
ekki gefið okkur að nytjahyggjumaður sem notar orð á borð við „þjáning“ og
„harmræn ákvörðun" leggi sömu merkingu í þau og aðrir, ekki frekar en við
getum gefið okkur að ungur hugsjónamaður og skáld sem notar orðasam-
bandið „nauðsynlegt morð“ skilji það sama skilningi og hið venjulega fólk
sem Orwell nefnir í tilvitnuninni hér að ofan.
15
Kristján Kristjánsson, „Af tvennu illu“, s. 44.