Tímarit Máls og menningar - 01.12.1965, Qupperneq 85
Saga um sökkullista og jleira
Maður meltir betur á hörðu en mjúku. Maður ropar minna.
Konan sótti flókaskó inn í ruslakompuna. Páll tók við þeim og lagði undir
höfuðið.
Vilt þú ekki halla þér líka, spurði hún smiðinn, nóg er gólfplássið. Hún
kom með gamla kápu, sem smiðurinn vöðlaði saman, hann lagðist rymjandi
á gólfið og stakk henni undir höfuðið.
Sama segi ég, ég hef alltaf gaman af látunum í bókunum hans, sagði Páll.
Pabbi, þú hefur aldrei lesið bók.
Láttu ekki svona, sagði konan. Hvaða máli skiptir það. — Maður fer að
hætta að geta talað.
0, víst, sonur minn, ég les hana á hverju kvöldi, sagði Páll, en þú ert þá
löngu kominn inn í draumalandið.
Nonni lét snörla í nefinu, yppti öxlum og lét sem hann tryði engu.
Lestu fyrir okkur, bað konan. Maður ætti ekki að hafa skaða af því.
Þú mátt ekki láta skarka í pottum á meðan.
Ekki fer ég að láta mér fallast hendur. Lestu nógu hátt og skýrt.
Nonni las hægt og sönglandi. Meðan hann las boraði hann í nefið og hnoð-
aði síðan fenginn í litlar kúlur. Konan opnaði gluggann og hleypti matarlykt-
inni út. Hún steig yfir mennina til að loka hurðinni að innri herbergjunum
svo slægi ekki að þeim á gólfinu vegna súgs. Smiðurinn, sem lagt hafði aftur
augun rifaði annað þeirra í von um að geta séð undir kjólinn, en konan fór
gætilega, hélt honum að sér, brosti, gaf í skyn að hún skildi, en lét smið-
inn ekki sjá neitt. Páll hafði einnig lokað augunum og krosslagt hendurnar á
maganum. Konan fór hljóðlega að öllu.
Hættu nú, Nonni minn, sagði hún, matartíminn þeirra er búinn.
Páll rauk upp með andfælum.
Mér hefur runnið í brjóst, sagði hann.
Smiðurinn opnaði augun, leit á klukkuna og spratt á fætur.
Komið fram yfir tímann, sagði hann.
Það gerir ekkert til, sagði Páll, ég er aldrei knappur á tíma við fólk. —
Trekktu upp á könnunni.
Það er allt til reiðu, sagði konan.
Jæja, blundaðirðu, spurði Páll og ók sér með kuldahroll í herðunum.
Barasta — ég hef víst blundað.
Maður verður þungur eftir matinn ef maður sofnar fast.
Ekki ef manni rétt rennur í brjóst.
323