Tímarit Máls og menningar - 01.12.1965, Page 99
lega ekki miklu, hugsaði ég með sjálfum mér. Er það kannske stoltið, sem
rekur þig áfram, kallinn minn. Þú vilt ekki viðurkenna, að þú sért úr leik.
„Já,“ sagði ég, „okkur vantar háseta. Vertu kominn með pokann þinn
þegar við erum búnir að landa. Þá förum við.“
„Hvað ertu að drolla þarna, gamli, ertu handalaus?“
Það var stýrimaðurinn, sem byrsti sig við gamla manninn.
Hann kipptist við og reyndi að herða sig við verkið. Hann hafði ekki við
hinum hásetunum. Ég sá, hvernig sjálfstraustið hvarf honum.
Þarna stóð hann, gamall og illa farinn af ævilangri erfiðisvinnu, útslitinn
og þreyttur, en ól þó þá von í brjósti, að hann gæti staðið ungum og hraust-
um félögum sínum á sporði.
Umkomuleysi hans fékk á mig. Hann kepptist við, svo hann gekk upp og
niður af inæði. Svitadropar hnöppuðust á enni hans og runnu niður í skeggið.
Stundum fékk hann slæmar hóstakviður og hóstaði svo ákaft, að hann varð
að hætta verki andartak.
Nú var mér hætt að standa á sama. Þetta gat ekki endað á annan veg en
að liann dræpi sig.
Ég var að því kominn að kalla til hans og segja honum að hætta og hvíla
sig, en tók mig á og þagði.
Ég vissi, að heldur vildi hann hníga dauður niður en að slík orð væru
til hans töluð.
Þegar við komum að landi, gekk hann í brúna til mín.
Nú var hann í fáu líkur þeim kampakáta og hressa karli, sem hafði staðið
keikur í stafni Bárunnar og horft út yfir sæinn, er hún sigldi út úr hafnar-
kjaftinum í upphafi þessa róðurs.
„Það er víst bezt ég hætti,“ sagði hann og horfði í andlit mér.
Ég hef ekki fyrr séð slíkt vonleysi í nokkurs manns svip.
Ég lagði hönd hlýlega yfir axlir honum til að láta hann finna það sem
ég gat ekki sagt.
Hann sneri baki við mér og staulaðist út.
Stuttu síðar sá ég hann ganga upp bryggjuna með pokann sinn á bakinu.
Ég horfði á eftir honum, þar til hann hvarf.
Hann leit ekki um öxl.
22 TMM
337