Húnavaka - 01.05.1972, Blaðsíða 59
HÚNAVAKA
57
Um tvítugsaldur var ég sendur í göngur á Eyvindarstaðaheiði. Ég
var þá vinnumaður á Móbergi í Langadal, en lánaður bóndanum á
Strjúgi í göngurnar. Þá var föst venja að hverjum gangnamanni var
gefinn gangnapeli með brennivíni í nesti, það var talið nauðsynlegt
meðal við kulda og harðrétti, sem alltaf mátti búast við inni á öræf-
um að haustinu.
Það þótti ekki forsvaranlega útbúinn gangnamaður, ef hann var
brennivínslaus „þar sem það gat varðað líf eða dauða mannsins“,
sagði fólkið.
í þessar göngur var lögð rík áherzla á að búa mig sem bezt út á
allan hátt, meðal annars spurði bóndinn mig hvort ég vildi hafa
brennivínspela með mér, það væri vissara ef við fengjum slæmt veð-
ur. Ég þakkaði það og sagðist ekki mundi nota það, þótt það væri í
förinni.
Ég náði i kunningja minn til samfylgdar, sem var öllum leiðum
kunnugur. Smám saman bættust fleiri í hópinn. Sumir reyndu hesta
sína, þar sem vegur var góður og mátti þar sjá margan fagran og
röskan klár.
Um kvöldið var komið í tjaldstað og voru þar samankomnir um
tuttugu manns.
Menn sprettu af hestum og komu þeim á haga. Tóku síðan hver
sinn nestispoka og báru inn í tjaldið er reist hafði verið. Við röðuð-
um okkur í hring með útveggjum og settumst að máltíð.
Hið fyrsta verk flestra var að taka upp nestispela sína, misjafnlega
voru þeir stórir, frá pela allt upp í pott. Þeir, sem höfðu ríflegasían
forða létu það ganga allt í kring í tjaldinu og allir gerðu því ein-
hver skil nema ég og vakti það enga athygli fyrst í stað.
Næstur mér á hægri hönd sat bóndi úr Svartárdal, miðaldra, stór
vexti og aðsópsmikill. Hann tók upp úr tösku sinni pottflösku af
brennivíni, saup vel á og rétti mér síðan sem næsta manni. Ég tók
við henni og fékk hana sessunaut mínum til vinstri, án þess að súpa á.
Eftir að flaskan hafði gengið allan hringinn til eigandans og hann
sopið á henni öðru sinni rétti hann hana enn á ný og lét hana ganga
áfram enn sem fyrr.
„Bíðið þið nú dálítið við,“ sagði flöskueigandinn. „Hafið þið
tekið eftir því piltar, að þessi strákur, sem situr hérna hjá mér, tekur
sig alveg út úr með að forsmá það sem honum er gott gert og óvirðir
ekki einungis mig, heldur okkur alla.