Húnavaka - 01.05.1972, Blaðsíða 79
HALLDÓR JÓNSSON, Leysingjastöðum:
„Ljótir líka
Forspjall: Við lestur hinna skemmtilegu endurminninga Ágústs
á Hofi flýgur margt í hugann. Flestir samtíðarmenn hans hér í
Húnabyggðum eiga um hann minningar frá fundum og ferðalögum
og hafa notið návista við hann að meira eða minna leyti. Því væri
ekki með öllu ólíklegt að fram kæmu þættir um samskipti hans við
menn og málefni. Vel mættu slíkir þættir nefnast Ágústínskir og
verður hér færður í letur einn slíkur.
Það var eitt haust seinni hluta áratugsins 1950—60, að Ágúst vinur
minn á Hofi kom að máli við mig og spurði, hvort ég gæti ekki
skroppið með sig vestur í Dali. Störf hafði ég nóg framundan, en
með því að ég hefi jafnan notið samvista við Ágúst og fýsti einnig
að kynnast aðferðum hans við mæðiveikisskoðun, en það var erindið,
lét ég til leiðast án mikilla eftirgangsmuna.
Lagt var upp snemma morguns og ekið sem leið liggur suður að
Dalsmynni og þaðan til Dala um Bröttubrekku, sem mér fannst
ekkert brött, enda er nú búið að færa veginn frá brekkunni, sem ber
þetta nafn. Fyrir mér opnaðist nýtt svið er vestur af kom, því að þar
hafði ég ekki farið um áður, og nú var gott að vera með Ágústi í för
til leiðsagnar og upplýsinga. Hann þekkti þarna hvern bæ, og ég
held flest fólk og kynnti óspart. Þarna blasti við Sauðafell hið sögu-
ríka, þarna á eyrunum neðan Hundadals voru vegnir Vestfjarða-
bræður o. s. frv. o. s. frv. Ágúst gat þess all kímileitur á svip, að þótt
ég þættist vel heima í fornsögum okkar, myndi mér lítt tjóa að etja
kappi við Dalamenn í þeim efnum og varð ég að kyngja þeim pill-
um þegjandi, en rétti aftur að honum róandi töflur úr eski mínu
ef þær mættu deyfa skot hans lítilsháttar.
Ætlun Ágústs var að koma á 4—5 bæi til skoðunar og var fyrst
haldið að Harrastöðum, en þeir munu draga nafn af Harra, nauti
Ólafs Pá, er þar bjargaðist af einn fellivetur ásamt 16 nautum öðr-
um.