Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2005, Blaðsíða 33
uppbrennt hefur heilar byggðir og borgir. Stundum hefur til straffs komið
eigin vangæsla mannanna á eldinum, að ég ei tali um, þá drykkjurútar hafa
kveikt eld í sjálfum sér með of mikilli víndrykkju. Stundum hefur jörðin í
sundur sprungið og af sínum iðrum eld til látið að eyðileggja menn, fénað og
landspláss, hver dæmi öllum eru ljósi af h. skrift, allmörgum sagnabókum og
frásögnum, en hér þurfti bevísingar til að færa. Þó hefur speki Guðs alloft því
svo til hagað, að hún hefur verndað og leitt sín böm mitt úr þeim voða og
þyrmt þeim, er hún vildi frelsa og unna lengri tíma til yfirbótar, eins og hér
urðu nú til auðsjáanleg dæmi. Bæði þessar og aðrar frásagnir um Drottins
hegningar eru þess vegna upp teiknaðar, að menn taki sér því heldur þar á
vara að egna yfir sig Guðs fortærandi reiðield nokkru sinni.19
Eldurinn er þannig sérstakt tæki í hendi Guðs við að áminna menn. Og Jón
Steingrímsson minnir á að Guð hafi á árunum næst undan eldinum blessað
fólk með velsæld og góðu árferði. En í stað þess að fóma Guði þakkargjörð
og þjóna honum með gleði, lét það velsældina villa um fyrir sér. Fólk tók
heldur ekki mark á ýmsum fyrirbærum sem gátu bent til þess að einhverjir
stórviðburðir væru í vændum og var því allsendis óviðbúið þegar ósköpin
dundu yfir.20
Það er auðvelt að skilja viðhorf af þessu tagi sem ótta og álykta sem svo
að prestar hafi með svona boðun verið að ógna fólki og vekja hjá því ótta.
Tilgangur hennar var hins vegar ekki að vekja ógn og ótta. Öllu heldur var
tilgangur hennar sá að vekja hjá fólki trú og traust á elsku Guðs og þar með
æðruleysi til að takast á við lífið í árvekni og með dómgreind sem geti leitt
til útsjónarsemi. Þegar menn treysta því að Guð sé sá er stjórnar jafnt mann-
lífi sem lífi náttúrunnar, geta þeir túlkað það svo að óblíð náttúruöfl og ill
öfl í mannlífinu geti reynst vera verkfæri Guðs ef fólk er reiðubúið að
treysta handleiðslu hans. Boðunin gekk þá út á að fá fólk til að reiða sig á
hjálp Guðs og nálægð til góðs samkvæmt því sem bók náðarinnar upplýsir
um. Þegar menn þess vegna ígrunda náttúruna og mannlífið, verða þeir að
hyggja að hvoru tveggja, lögmálum náttúrunnar sem Guð hefur sett og þeim
vilja Guðs sem hann hefur opinberað mönnum í bók náðarinnar. Innsæi í
vilja Guðs átti að kenna fólki að vera æðrulaust og örvænta ekki.
Áminningarorðin eru því þau að vera vakandi, vera trúr, leggja allt í
hönd Guðs og vænta sér alls góðs af honum.
19 Jón Steingrímsson 1973, s. 339-340.
20 Jón Steingrímsson 1973, s. 344-345.
31