Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2005, Blaðsíða 50
Ég sat kvöld eitt ein í herbergi mínu, og var þá eins og múramir hryndu
skyndilega niður. Það kom ekkert sérstakt fyrir mig, en ég fann alt í einu aft-
ur heildarlífið, fann mig hvíla í faðmi altilverunnar, ásamt öllum öðmm sál-
um, fann að ég lifði og þær lifðu og að við áttum að lifa um alla eilífð.18
Þessi lýsing er eins konar upprifjun þeirrar reynslu sem Aðalbjörg varð fyr-
ir sjö ára gömul og áður er getið, þar sem: „múrar sérvitundarinnar hrundu“.
En þegar hér er komið sögu nýtur hún kynna sinna af guðspekinni við úr-
vinnslu hennar.
Umræða um þróunarkenningu Darwins og erfikenningar kirkjunnar var
ofarlega á baugi innan hinnar ungu kennarastéttar um og eftir aldamótin
1900. Sumt í námsefni kennaraskólans var eins og olía á eld efasemda henn-
ar í trúmálum. Það var einkum þróunarkenning Darwins sem virtist vera í
beinni andstöðu við sköpunartrú Biblíunnar og allar hugmyndir trúarbragð-
anna um annað líf. Trúin á Guð og annað líf er henni of mikið alvörumál -
of tengd samkennd hennar við ástvini sína - til þess að hún gæti afgreitt
hana auðveldlega og hafnað henni. „Ég stóð nærri Darwinismanum“, segir
hún í blaðaviðtali. Hún var þó ekki sátt við hann að öllu leyti og bætir við:
„Þegar ég varpa frá mér minni Helvítistrú, fer ég yfir í Darwinismann, en
sætti mig þó ekki við að ekki sé neitt annað líf til.“19 Eins og nærri má geta
áttu aðrir í sömu glímu og Aðalbjörg um og eftir aldamótin 1900, ekki síst
kennarar. Þetta viðfangsefni var á dagskrá á kennaranámskeiði, sem Aðal-
björg tók þátt í í Reykjavík vorið 1908. Valdimar Valvesson, skólastjóri á
Neskaupsstað, sem síðar tók sér ættamafnið Snævarr, sótti þetta námskeið
og benti henni á að kenningar guðspekinga tækju á þessu vandamáli og að
hún gæti haft gagn af því að kynna sér þær.
Aðalbjörg tók þessari ábendingu fegins hendi og hófst þegar handa um
að safna saman fólki til að mynda leshring um boðskap guðspekinnar. Hafði
hún fyrst samband við frændur sína, þá Hallgrím, Sigurð og Aðalstein Krist-
inssyni og þeir sýndu málinu áhuga. Þeir þekktu Odd Bjömsson prent-
smiðjustjóra sem tók vel í málaleitan þeirra um að lána þeim bækur.20 Hann
hafði gengið í guðspekistúku í Kaupmannahöfn, þegar hann var við nám
þar. Hann flutti til Akureyrar til að setja á stofn prentsmiðju árið 1901 og
hóf í kyrrþey að kynna kenningar guðspekinnar.21
18 Aðalbjörg Sigurðardóttir 1922:193.
19 Morgunblaðið 10. janúar 1967.
20 Aðalbjörg Sigurðardóttir. Fyrirlestur í Guðspekifélagshúsinu í Reykjavík.
21 Pétur Pétursson 1985: 104.
48