Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2005, Blaðsíða 117
valdið eigi upptök sín í siðbreytingunni. Þetta er auðsætt þegar ég fjalla sér-
staklega um ríkisvaldið og upptök þess á 16. öld í öðrum kafla (bls. 255).
Þetta hefur Hjalta yfirsést.
Hjalti ritar, ‘Það verður að teljast missögn að ferming hafi haldist hér í
lútherskum sið en aðeins breytt um inntak’ (bls. 127). Ekki veit ég til að ég
segi þetta heldur hið gagnstæða, að það hafi verið ‘þvert gegn lærdómi
Lúthers’ að ferma (biskupa) börn (bls. 109). Ég tek líka fram að fermingin
hafi verið felld niður sem eitt af sakramentunum (bls. 122). Guðbrandur
biskup Þorláksson beitti sér fyrir að koma á fermingu að nýju sem skyldu
og vildi þar með staðfesta formlega að ungmenni hefðu lært fræðin með til-
skildum hætti. Lét hann árið 1596 prenta á Hólum bækling sem nefnist Sú
rietta confirmatio og fór að þýskri fyrirmynd. Miðað við vanalegan dugnað
Guðbrands og sterka stöðu mun hann hafa komið fermingunni á í nýrri
mynd en um framkvæmdina að öðru leyti segi ég ekki neitt. Um þetta hefði
ég vissulega getað sagt meira en tel að betur fari þó á að taka málið upp í
næsta bindi af Sögu íslands, áttunda bindi, í sambandi við tilskipun um
fermingu frá árinu 1736.8
Undarlegt þykir mér að Hjalti segir að ég halli nokkuð á hlut Páls Stígs-
sonar sem hafi líklega haft allt eins mikil áhrif og Gísli biskup Jónsson við
‘að festa lútherska siði í sessi’. Ég segi að þeir hafi verið samhentir um þetta
Páll og biskup en geri ekki upp á milli þeirra (bls. 117).
Þá er það furðulegt að Hjalti segir (bls. 128) að hvergi komi fram í verki
mínu að helsti lærifaðir Guðbrands biskups hafi verið Niels Hemmingsen
sem hafi misst embætti enda verið grunaður um kalvínsk viðhorf. Frá
Hemmingsen og tengslum þeirra Guðbrands segi ég á bls. 168 og á bls 169
er mynd af Hemmingsen og rækilegur myndartexti þar sem kemur fram að
honum hafi verið vísað úr embætti vegna gruns um kalvínsk áhrif. Allt þetta
virðist Hjalta hafa yfirsést.
Um Hemmingsen er fjallað í kafla um Guðbrand og eftir umsögn sína
um hann bætir Hjalti við, ‘Bágbornasti hluti þessa kafla er þó tilraun Helga
til að útskýra kenningu Lúthers. Hann leggur einkum áherslu á tvöfalda út-
valningarkenningu sem var alls ekki að finna hjá Lúther’ (128). Um þetta
8 Páll Eggert Ólason skrifar ma. um Guðbrand, 'Honum má eigna að ferming var hér tekin upp þó að ekki
væri hún að öllu lögboðin fyrr en með konungsbréfi 13. jan. 1736’. Páll Eggert bendir á að Gísli biskup
Jónsson í Skálholti fylgdi sömu stefnu og Guðbrandur um að ekki mætti veita bömum sakramenti nema
prestur hefði yfirheyrt þau og gengið úr skugga um réttan skilning þeirra á fræðunum, Menn og mennt-
ir siöskiptaaldarinnar á Islandi IV (1926), 401-2.
115