Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.01.2005, Blaðsíða 49
undarinnar eins og hún kallaði það sjálf - voru lrkleg orsök þess að hún
syrgði ekki föður sinn við andlát hans.
En hún syrgði hann nokkrum árum síðar og í þeirri sorgarvinnu reyndi
hún það sem á máli djúpsálarfræðinnar er kallað tilfærsla.16 Hún missti vin-
konu sína, frænku og jafnöldru, Jakobínu Jónsdóttir, sem áður er nefnd,
þegar hún var innan við tvítugt og viðbrögðin urðu þá sterk og áfallið mik-
ið, enda var hún þá líklega um leið að syrgja föður sinn. Hún var illa í stakk
búin til að vinna úr áfallinu, því hún hafði misst trúna þegar presturinn
kenndi henni trúfræði kversins fyrir fermingu. Það var henni ekki léttir að
eiga minningu um það, að faðir hennar efaðist um kenningar kirkjunnar og
hún virðist ekki hafa getað unnið úr þeim stóru spurningum, sem við það
vöknuðu. Þegar svo farið var að halda trúfræði kirkjunnar að henni fyrir al-
vöru í fermingarfræðslunni olli það henni öryggisleysi.
Hún lýsir þessu þannig:
Niðurstaðan varð sú, að hefði ég mátt ráða fermingarvorið mitt, þá hefði ég
áreiðanlega ekki látið ferma mig. Næstu árin á eftir hrundu allir trúarlærdóm-
ar til grunna hjá mér, en af því að ég var svo ung, hafði ég ekki vit á að
hreinsa hveitið frá hisminu. Odauðleikatrúin og jafnvel guðstrúin fóru sömu
leiðina, því að ég dró þá röngu ályktun, að fyrst eitthvað af hinni risavöxnu
trúarlærdómabyggingu kristindómsins félli, þá hlyti hún öll að falla, og öll
trúarbrögð mundu vera heimska. Ég hætti af ásettu ráði að biðja guð, og ég
sleit mig út úr sambandi því, sem ég hafði lifað í við hið ósýnilega.17
En Aðalbjörgu fannst það óbærileg tilhugsun að vinkona hennar væri alger-
lega horfin, töpuð um alla eilífð og gat fyrst eftir andlát hennar ekki eygt
nokkum ljósdepil í tilverunni og vonleysið hertekur hana. Ef frænka henn-
ar var henni algerlega horfin þá var einnig andlegt samband hennar við föð-
ur hennar lífs og liðinn einungis tálsýn. Um þetta leyti hófust umræður
manna á meðal um spíritisma og sálarrannsóknir og hún lagði eyra að þeim
í þeirri von að geta sannfærst um áframhaldandi tilvist vinkonu sinnar. Hún
reyndi einnig að fylgjast með því sem sagt er um guðspekina og það gerði
það að verkum að hún fór að trúa aftur á gildi dulrænnar reynslu sinnar. Sjö
árum eftir að hún missti vinkonu sfna upplifði hún aftur samband við ann-
an heim og hún lýsti þessari reynslu á eftirfarandi hátt. Tökum eftir því að
hún er aftur ein:
16 Freud 1976:425.
17 Aðalbjörg Sigurðardóttir 1922:192.
47