Skagfirðingabók - 01.01.1983, Blaðsíða 12
SKAGFIRÐINGABÓK
móður sína, 1855. Fór hún þá að Grenivík, en þar bjuggu
Loftur og Guðrún þá og síðar á Sauðanesi. Þau voru ríkis-
fólk. Loftur var útgerðarmaður og líklega formaður á hákarla-
skipi.
Ekki vildu þau Loftur og Guðrún, að fósturdóttir þeirra
gengi að eiga Ásgrím Gunnlaugsson, og sagan segir, að þau hafi
viljað láta hana eiga annan mann. Ef til vill hefur prestsdóttirin
frá Stærra-Árskógi verið siðavönd og ráðrík og viljað fóstur-
dóttur sinni vel, með því að fá henni gott gjaforð án þess að
tilfinningar réðu.
Guðrún Olafsdóttir fór til Ameríku, þegar Hartmann sonur
hennar var á fyrsta ári. Varla hefur það verið henni sársauka-
laust, en sú saga verður aldrei sögð.
Svo liðu áratugir. Hartmann vissi ekkert um móður sína fyrir
vestan haf. Árið 1914 fluttist Magnús Ásgrímsson, bóndi og
hreppstjóri á Sleitustöðum, til Vesturheims með fólk sitt. Hart-
mann í Kolkuósi bað Magnús komast eftir því, hvar móðir sín
væri niður komin, ef hún væri lífs og mun hafa hugsað sér að
styrkja hana fjárhagslega, ef þörf gerðist.
Magnús Ásgrímsson komst að því, hvar Guðrún Ólafsdóttir
var niður komin og náði sambandi við hana. Hún hafði farið
rakleiðis vestur á Kyrrahafsströnd. Lengra komst hún ekki í
vesturátt frá æskustöðvum sínum við Eyjafjörð; hafði ekki
verið með íslenzku fólki og aldrei talað íslenzku eftir að vestur
kom.
Árið 1920 fékk Hartmann bréf frá móður sinni, og er það enn
til. Hún giftist kaupmanni eða verzlunarmanni, sem reyndist
henni með ágætum, og urðu þau vel efnum búin. Þau eignuðust
fjögur börn, dóttur og þrjá syni. Myndir voru sendar af þeim
systkinum og hafa þau verið bráðmyndarleg. Á myndunum eru
þeir bræður í hermannabúningum, því þeir gegndu herþjónustu
í stríðinu 1914-1918.
Þó ætla megi, að Hartmann í Kolkuósi væri ekki velkominn í
þennan heim, varð lífshlaup hans allt hið gæfusamlegasta. Hann
10