Skagfirðingabók - 01.01.1983, Blaðsíða 101
SUMUR Á SYÐRI-BREKKUM
þá Stína að róa, en ég tók bátsfestina og fleygði henni til þeirra
upp á mótorinn. Svo sátum við í okkar bát og vorum nú heldur
en ekki hróðugar.
Þegar út að Flateyri kom, slepptu þeir bátnum okkar, og
rerum við þá tii lands. Maðurinn, sem lánaði bátinn, kom og
hjálpaði okkur að draga hann upp, og ekkert kostaði lánið.
Þarna vorum við nú allan næsta dag. Þá kom Esja kl. 10 um
kvöldið. Fórum við þá strax að útvega okkur pláss. Fóru tvær
um borð, en sú þriðja passaði flutning okkar, því ekki veitti af,
troðningurinn var svo mikill. Gekk okkur vel að fá kojur, við
fengum þær á öðru farrými, sín í hverjum klefa, og þótti okkur
það slæmt að geta ekki verið saman allar, en það var nú bara yfir
nóttina, því á daginn vorum við saman. Einn skipsmaðurinn á
Esju er farinn að þekkja okkur, því við erum svo oft með. Hann
sagði, þegar hann sá okkur: „Nú er það kaupavinna!“ „Já“,
sögðum við.
Þegar farið var frá Hvammstanga, skall svo mikil þoka yfir allt,
að skipið nam staðar. Ekkert vissi ég, hvenær það lagði af stað
aftur; var víst einhvern tíma um nóttina og kom snemma
morguns til Blönduóss; svo þaðan til Skagastrandar. Var stutt
viðdvöl á þessum höfnum. Svo þegar komið var norður að
Skaga, kom þokan yfir allt aftur. Samt hélt skipið áfram, en það
var engin ferð. Við heyrðum, að einn stýrimaðurinn sagði einu
sinni, að við værum ekki nema fáeinar skipslengdir frá
Drangey, en ekkert sást nema ofan í sjóinn fast við skipshliðina.
Þetta var um miðjan sunnudag, en seint um kveldið er komið á
Sauðárkrók. Birti þokuna þá svolítið, og sást til lands. Mátti
það ekki tæpara vera að færi í strand; höfðu þeir farið of
austarlega, upp undir Hegranesið. Gekk þetta allt greiðlega,
sem eftir var. Smábátar komu að borði, og fórum við að reyna
til að komast sem fyrst í land. Þá var kominn piltur að sækja
Stínu Einarsdóttur, og kom hann um borð, svo hann hjálpaði
okkur algjörlega, við þurftum lítið um það að sýsla.
99