Skagfirðingabók - 01.01.1983, Blaðsíða 170
SKAGFIRÐINGABÓK
freistaði þess að láta klárinn brokka, en þá snaraðist hnakkur-
inn, og ég datt af baki. Vaughan kom mér til aðstoðar, og við
lögðum á hestinn og hertum gjarðirnar. Eg steig svo á bak — og
allt fór á sama veg. Ekki gengi ferðin greiðlega með þessu
áframhaldi. Ég hafði oft lesið, að í Suður-Ameríku og Albaníu
væri það háttur kvenna á langferðum að sitja hesta eins og
karlar. Meira að segja riðu enskar konur með þessu lagi, þangað
til Anna af Bæheimi, drottning Ríkharðs annars, tók upp nýja
siðu og reið í söðli öðrum til fordæmis, þótt sumar konur sætu
hesta sína áfram eins og þær höfðu gert. Eg hafði séð íslenzkar
konur ríða í hnakk og var sannfærð um, að slíkt reiðlag væri
öruggara og ekki eins þreytandi. Þótt ég hefði vanizt hestum frá
æsku, voru fararskjótarnir svo hastir og landið svo hrjóstrugt,
að ógerningur var að sitja söðulvega í hnakk. Og berbakt var
ekki hægt að sitja á svo hörðum og hvössum hrygg. Eg átti því
um tvo kosti að velja. Annaðhvort snúa heim eða sitja hestinn
eins og karlmaður. En neyðin eykur mönnum þor, og ég afréð
að láta hefðir lönd og leið og fylgja fordæmi Islendinga. Bróðir
minn stytti ístaðsólarnar, en hitt fólkið hélt áfram ferðinni.
Eftir nokkrar tilraunir tókst mér að setjast klofvega yfir hrygg
hestsins. I fyrstu fannst mér hjákátlegt að sitja svona og var
dálítið spéhrædd. En Vaughan fullvissaði mig um, að til þess
væri engin ástæða og lagaði fötin mín, svo fellingarnar lögðust
að síðum hestsins báðum megin. Ég afréð að reyna, og innan
tíðar féll mér þetta reiðlag ágætlega og lét klárinn brokka. Hins
vegar var erfiðara að fylgja hreyfingum hestsins þegar hann
valhoppaði, en eftir nokkrar klukkustundir var ég fær í flestan
sjó, og klárinn brokkaði, tölti eða valhoppaði að vild minni, og
óttaðist ég ekki að detta af baki. Samferðafólkið skemmti sér
konunglega þegar ég náði því og brokkaði djarflega fram hjá, og
mér leið svo vel í hnakknum, að ég lét stríðni og kerskni sem
vind um eyru þjóta. Ef til vill kemur dirfska mín lesendum á
óvart, en ég ætla þó að hætta til að setja á blað niðurstöður af
þessari tilraun minni, sem var gerð við afar óhagstæð skilyrði.
168