Skagfirðingabók - 01.01.1983, Blaðsíða 104
SKAGFIRÐINGABÓK
bannaðar allar samgöngur í allt sumar, enda var lítið farið bæja á
milli, nema nauðsynlegt væri.
Einn sunnudag á byrjuðum engjaslætti fór ég í reiðtúr með
Sigríði, systur húsmóður minnar. En það var galli á gjöf Njarð-
ar: við máttum hvergi koma við á bæjum. Samt skemmti ég mér
ágætlega, því veðrið var ágætt. Við fórum um miðjan dag og
riðum hægt, því mér var sagt, hvað hver bær héti, og athugaði
ég allt, sem ég sá í kring.
Svona héldum við áfram, unz við höfðum farið fram hjá 23
bæjum. Þá vorum við komnar að á, sem heitir Dalsá. Er hún
stór og vatnsmikil. Þarna fórum við af baki á árbakkanum og
settumst niður til að drekka kaffi og kökur með, sem við
höfðum meðferðis. Hinumegin við ána sá ég álengdar stórt hús,
og var það þinghús Akrahrepps; eru haldnir í því fundir og
ýmsar skemmtanir. Þetta hús er þannig til komið, að maður
einn, Símon að nafni, sem bjó þarna skammt frá,1 var ákaflega
ríkur. Hann átti son, sem drukknaði í Héraðsvötnunum fyrir
nokkrum árum.2 Þá gaf hann þessum hrepp mikla fjárupphæð
til minningar um son sinn, og fyrir það fé var hús þetta reist. Er
það tvílyft, og aðalsalurinn er niðri, en uppi er eldhús og
veitingasalur og herbergi fyrir fólk að laga sig í, sem er frá
fjarlægum bæjum. Núna í hitteðfyrra var þessum Símoni haldið
samsæti fyrir þessa gjöf. Stóð það yfir nærri sólarhring, og var
þar súkkulaði- og kaffidrykkja, ræðuhöld, sögulestur, söngur
og margt fleira. Svo var endað með dansi. Aldrei sá ég
þennan mann, sem ég heyrði svo mikið talað um. I fyrra,
þegar húsbóndinn var að fylgja mér úr kaupavinnunni,
kom þessi maður að Syðri-Brekkum, en í sumar, þegar ég kom
aftur, var hann dáinn fyrir tveimur mánuðum, og hafði aldrei
1 Þ. e. Símon Eiríksson, bóndi í Litladal, fræðimaður mikill.
2 Skarphéðinn Símonarson, bóndi í Litladal, drukknaði 15. nóvember 1914,
ókvæntur og barnlaus. Hann var sterkefnaður, og tók faðir hans mikinn arf
eftir hann.
102