Skagfirðingabók - 01.01.1983, Blaðsíða 24
SKAGI'IRÐINGABÓK
Kolkuósi. Þessir samstöðumenn í símamálinu ræddu oft saman
og voru hissa á því, að séra Hallgrímur í Glaumbæ skyldi
berjast á móti símanum, þar sem hann hefði numið í lærða
skólanum og kunni bæði latínu og frönsku!
Arið 1907 var Hartmann í Kolkuósi kosinn í hreppsnefnd
Viðvíkurhrepps. Með honum voru þá í sveitarstjórn Pálmi á
Svaðastöðum og Jósef á Vatnsleysu, sem var oddviti. Á þessum
árum töldust fátækramál aðalviðfangsefni sveitarstjórna og
stöku sinnum útsvarskærur.
I sveitarbók Viðvíkurhrepps er skráð, að hreppsnefnd hélt
fund 17. júní 1907 og var verkefnið meðal annars það, sem hér
fer á eftir:
„II. Mál. Niðursetning Steinunnar Magnúsdóttur. Sam-
kvæmt ákvæði hreppsbænda var hreppsnefndinni á hreppa-
skilum falið að jafna Steinunni niður á alla búendur hreppsins
eftir útsvarsupphæð á síðasta hausti.“
Konu þessari var „jafnað niður“ á tuttugu og einn bæ. Níu
bæir áttu að framfæra hana eina viku hver, fimm bæir tvær
vikur hver, tveir bæir fimm vikur hver, einn bær þrjár vikur,
einn bær fjórar vikur, Kolkuósi voru úthlutaðar sex vikur,
Viðvík sjö vikur og Hofstöðum sjö vikur, bú Björns. Þannig
var hinni fátæku konu, Steinunni Magnúsdóttur, útvegaðir
framfærslustaðir á tuttugu og einum bæ í fimmtíu og sex vikur.
A hreppsnefndarfundi 30. desember 1907 var tekin fyrir
útsvarskæra frá séra Zophóniasi í Viðvík, þar sem hann fór fram
á, að útsvarið yrði lækkað um sextán krónur. Astæður voru
þær: í fyrsta lagi, að tekjur prestakallsins frá árinu áður voru
ógreiddar að helmingi og í öðru lagi slæmar heimilisástæður
vegna veikinda konu hans.
Hreppsnefndin samþykkti, að útsvarið skyldi standa óbreytt,
en Hartmann bauð, að sitt útsvar mætti hækka um þrjár
krónur, og kæmu þær til lækkunar á útsvari prófasts. Þetta
tilboð byggði Hartmann á því, að ekki væri neitt heilsuleysi hjá
sér í samanburði við veikindi konu séra Zophóniasar.
22