Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Blaðsíða 57
tók tillit til þeirra atburða. Ritskýring Opinberunarbókarinnar hentaði vel
til að koma henni áleiðis en erindið knúði meira á en svo að það væri hægt
að takmarka við kennslu í guðfræðideild Háskólans. Erindið var brýnt,
boðskapurinn þurfti að heyrast víðar, óbjagaður í veröld sem virtist komin
að fótum fram.
Sigurbjörn var vissulega prófessor við guðfræðideildina á þessum
tíma og orð hans höfðu vægi samkvæmt því. Það fer þó ekki hjá því að
til muna eykst þungi orða þess sem tekur sér stöðu við hlið höfundar
Opinberunarbókarinnar og gerir hinn ofsótta söfnuð spámannsins að
sínum. Afstaða hans er afstaða safnaðarins og þeir sem fallast ekki á hana
eru andstæðingar. Sigurbjörn mælir fyrir hönd kirkjunnar á viðsjárverðum
tímum þar sem knýjandi þörf er á festu og eindreginni afstöðu. Með
því að færa guðfræðiumræðuna inn á svið Opinberunarbókarinnar skýrast
átakalínurnar til muna. Opinberunarbókmenntir bjóða ekki upp á grátt
svæði, línurnar eru skýrar, hálfvelgjan dugar ekki.
Túlkun Sigurbjörns er tilboð um lausn á þeim vanda sem að steðjar,
en þá verða lesendur, hvort sem það eru fræðimenn, kirkjunnar þjónar
eða hinn almenni lesandi, að samþykkja þá afstöðu sem í bók hans er sett
fram, samþykkja boðskap þeirrar kirkju sem hann talar fyrir. Þegar öllu er
á botninn hvolft, er sá boðskapur vonarpredikun. Skilaboðin eru þau að
„hinn gamli, fallandi heimur ber nýja veröld, nýtt mannkyn í skauti sér“.74
Þó Opinberunarbókin sé átakarit þá felur hún einnig í sér huggunarboðskap
fyrir þá sem taka sér stöðu réttum megin víglínunnar. Sá boðskapur birtist
skýrt í ritskýringu Sigurbjörns:
Líðandi og stríðandi kirkja Guðs fær þannig að sjá myndina af sjálfri sér, eins
og hún verður, þegar sigurinn er unninn og dýrð hennar orðin opinber. Sú
mynd skal blasa við sjónum hennar í öllum umskiptum tímanna, hana skal
bera yfir alla lægingu, smán og kúgun, alla svikna sigra, gengi og upphefð.
Sú mynd, það tákn skal vera henni áminning, örvun og aflgjafi, eins og það
styrkir og leiðréttir þann, er þreifar sig áfram í hríðarsorta og sækir gegn
stórviðri, að sjá bregða fyrir ljósinu í glugganum heima.75
í lausninni felast þau átök sem einkenna vandann. Víglínan er enn til
staðar. En vonin um að átökunum muni einhvern tímann linna getur aðeins
kviknað á vígvellinum.
74 Sigurbjörn Einarsson, Opinberun Jóhannesar, 119.
75 Sama rit, 103.
55