Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Side 83
reglu stjórnarskrárinnar (65. gr.). Því ber ekki að skoða þá sem framandi,
„öðruvísi“, skrýtna eða sér-fyrirbæri eins og m.a. er gert með hugtakinu
sértrúarsöfnuður eins og trúarlegir minnihlutar eru gjarna nefndir hér.
Með lögum um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997
(svokölluðum þjóðkirkjulögum) var þjóðkirkjan skilgreind sem trúfélag er
nýtur sjálfstæðis og sjálfsstjórnar innan lögmæltra marka.51 Þjóðkirkjan
hafði þá keppt að þeirri stöðu allt frá upphafi 20. aldar.52 Slík skilgreining
á meirihlutakirkjunni í landinu er á ýmsan hátt til bóta með tilliti til
veraldarvæðingar ríkisvaldsins og aukinnar fjölhyggju. Með þessari skil-
greiningu var haldið áfram á leið til stofnunarlegrar aðgreiningar ríkis og
kirkju sem hófst þegar með stjórnarskránni 1874. Ofangreind skipan getur
verið skref í átt að aðskilnaði þjóðkirkjunnar frá ríkisvaldinu. Svo þarf þó
ekki að vera. - Við núverandi aðstæður getur þessi skipan aftur á móti lagt
grunn að skerpingu í þjóðkirkjunni. Á grundvelli hennar gæti þjóðkirkjan
valið að koma í auknum mæli fram sem trúfélag í hópi annarra trúfélaga,
tekið að upplifa sig með líkum hætti og þau, en þó jafnframt gert tilkall til
aukins réttar vegna stöðu sinnar, stærðar og sögu, fremur en að axla ábyrgð
gagnvart þeim.
Hér hefur verið rætt um skerpingu á fremur neikvæðum nótum. Hún
kann þó að leiða til þess að valkostir verði skýrari og vitundarvakning
eigi sér stað bæði innan og utan þeirrar stofnunar sem beitir skerpingunni.
Vitundarvakning kann að vera af hinu góða svo fremi hún leiði ekki til
árekstra við aðra.
Annað viðbragðamunstur vestrænna trúarstofnana frammi fyrir þeim
áreitum sem kortlögð voru hér að framan felst í innhverfmgu. Með
hugtakinu er átt við þá tilhneigingu trúfélags að hverfast inn á við, leggja
áherslu á andlega þætti trúarinnar, það spíritúalítet sem henni er samfara,
sem og aðrar hefðir hennar í tilbeiðslu og innri uppbyggingu. Innhverfing
er skyld skerpingu að öðru leyti en því að hana skortir að miklu leyti þann
félagspólitíska brodd sem skerpingin hefur oft þar sem hún getur allt í senn
beinst gegn hinu trúarlega, menningarlega og samfélagslega umhverfi. Þá
þarf innhverfing ekki að merkja að einvörðungu sé horfið til „eigin“ hefða
ákveðins trúfélags heldur er oftar en ekki horfið til samkirkjulegra hefða
eða siða sem yngri kirkjudeildir sækja til eldri kirkna. Má í því sambandi
51 Lög um stöðu, stjórn og starfshætti þjóðkirkjunnar nr. 78/1997. Slóð, sjá heimildaskrá.
52 Hjalti Hugason, 2010a. Hjald Hugason, 2010b. Hjalti Hugason, 2011.
81