Ritröð Guðfræðistofnunar - 01.09.2012, Page 155
í samfélaginu er ekki hægt að aðgreina frá sjálfsvirðingu einstaklinga og
virðingunni fyrir öðrum. Réttlætanlega gremju einstaklinga tengir Murphy,
líkt og Butler, grimmdar- og níðingsverkum þar sem persónur eru svívirtar.
Gremja einstaklinga er að hans mati andsvar við tvenns konar illverkum:
beinum ofbeldisbrotum, eins og t.d. líkamsárás, og svo rangindum hins
vegar, þar sem einstaklingur hefur beitt einhverjum fyrir sig í trássi við vilja
viðkomandi og jafnvel án vitundar hans. I fyrra tilvikinu er mikilvægt að
fórnarlambið tjái gremju sína gagnvart gerandanum en í því síðara er mikil-
vægt að allir borgarar sem hlýða landslögum geri það. Sjálfsvirðingu, sem
gremjan stendur eðlilega vörð um, er heilbrigt að tjá í réttum aðstæðum,
nefnilega þeim þar sem persóna hefur verið svívirt eða misvirt. Að tjá ekki
gremju við slíkar aðstæður ber vott um vöntun á sjálfvirðingu.37
Augljóst er að Murphy á margt sameiginlegt með Nietzsche. Einnig
virðist mér hann sammála þeim Logstrup og Derrida um að til sé eitthvað
sem kalla megi ófyrirgefanlegt sem feli það í sér að fyrirgefningartal eigi sín
takmörk. Hann hafnar því ekki að fyrirgefningin hafi mikið siðferðisgildi en
það gildi er ekki æðra öllum öðrum gildum, að hans mati. Þvert á móti getur
gildi þess að fyrirgefa rekist á önnur gildi sem eru jafn mikilvæg og jafnvel
mikilvægari og þar nefnir hann sjálfsvirðinguna fyrst og fremst.38 Enda
þótt Murphy haldi á loft gildi gremjunnar fyrir sjálfsvirðingu einstaklinga,
útilokar hann ekki fyrirgefninguna úr mannlegu samfélagi. Enginn vildi lifa
í samfélagi sem myndi gera slíkt, segir hann, það væri óbærileg tilhugsun.
Það sem þarf þó að aðgæta vel, bætir hann við, er hvernig má fyrirgefa,
án þess að fórna sjálfsvirðingu sinni og þar með virðingu fyrir siðferðinu í
samfélaginu.39 Svar hans um það hvernig megi tjá þetta á réttan hátt á ýmis-
legt sameiginlegt með hugleiðingum guðfræðinga um synd, sekt og fyrir-
gefningu. Iðrun hins brotlega er t.d. nauðsynleg forsenda fyrirgefningar. Án
iðrunar brotamannsins er sjálfsvirðingu þolanda ógnað. Ef brotamaðurinn
iðrast og fordæmir þau verk sem hann hefur framið - þá er möguleiki á
fyrirgefningu af hálfu þess sem brotið var á. En Murphy er fremur raunsæis-
maður en bjartsýnismaður. Að slíkt gerist er harla ólíklegt, að því er hann
telur. Heimurinn heldur áfram að vera fullur illsku og grimmdarverka,
brotamenn iðrast ekki og á meðan svo er, er nauðsynlegt að halda fast við
37 Jeffrie G. Murphy, GettingEven. Forgiveness and its Limits, Oxford, NewYork: Oxford University
Press, 2003, bls. 16-19.
38 Sama heimild, bls. 115.
39 Sama heimild, bls. 33-35.