Saga - 2009, Blaðsíða 57
einkum Noregi.4 Um það voru lögin líka nokkuð skýr: Frá 11. öld
skyldu þegnar Noregskonungs hafa lög og rétt á Íslandi sem íslenskir
landsmenn og í Noregi skyldu Íslendingar hafa höldsrétt, þ.e. rétt-
indi norskra óðalsbænda sem voru skör hærra settir en almenningur.5
Sumir Íslendingar gerðust hirðmenn Noregskonungs eða höfðingja
ytra og þótti sómi að. Ryfu þeir eiða sína áttu þeir hins vegar yfir
höfði sér að missa líf og limi. Frá fornu fari þóttu slíkir „landráðamenn“
og „drottinsvikarar“ með verstu níðingum meðal germanskra þjóða
og skyldi hegna þeim með því að höggva þá í stykki eða rífa í sundur.6
Í lögum á þjóðveldisöld var auk þess að finna ákvæði um heiður
hinna norrænu konunga og varðaði það skóggang að yrkja „níð eða
háðung um konung Svía eða Dana eða Norðmanna“.7
Á þrettándu öld leið þjóðveldið undir lok og Ísland komst undir
konungsvald. Seint í september 1941 var eins kafla í lokaþætti þeirrar
sögu minnst á þann veg í Verkamanninum, málgagni Sósíalistaflokksins
á Akureyri, að aðfaranótt þriðjudagsins 23. september „voru 700 ár
liðin frá því að Snorri Sturluson var drepinn, sakaður um landráð af
Noregskonungi. Var það Quislingurinn Gissur Þorvaldsson er vann
ódæðisverkið að vega hinn aldraða tengdaföður sinn.“8 Í þessum
orðum var dregin saman vinsæl kenning úr sjálfstæðisbaráttunni;
að til hefðu verið þjóðníðingar, með Gissur jarl í broddi fylkingar,
sem sviku Íslendinga undir erlend yfirráð. ekki þarf að leita lengi á
internetinu til að sjá að „hrunsveturinn“ 2008–2009 naut þessi skoðun
enn fylgis. Breytir þá engu að nú er vart til sá sagnfræðingur sem
myndi líkja Gissuri við landráðamenn seinni tíma og Gamla sátt-
mála við föðurlandssvik. Ólafur Hansson var með þeim fyrstu sem
reyndu að kollvarpa slíkum samanburði og skrifaði svo á 700 ára af-
mæli Flugumýrarbrennu sumarið 1953:
Íslensku höfðingjarnir á 13. öld, er gerst höfðu handgengnir kon-
ungi, töldu það landráð að svíkja hann en ekki hitt, að koma
„þeir fólar sem frelsi vort svíkja“ 57
4 Sverrir Jakobsson, „Defining a Nation: Popular and Public Identity in the Middle
Ages“, Scandinavian Journal of History 24/1 (1999), bls. 91–101.
5 Grágás. Lagasafn íslenska þjóðveldisins. Gunnar karlsson, kristján Sveinsson og
Mörður Árnason sáu um útgáfuna (Reykjavík: Mál og menning 1997), bls. 478–479
(stakir kaflar úr konungsbók).
6 Lúðvík Ingvarsson, Refsingar á Íslandi á þjóðveldistímanum (Reykjavík: Menningarsjóður
1970), bls. 117.
7 Grágás, bls. 274 (Vígslóði: 15).
8 „700 ára dánardags Snorra Sturlusonar min[n]st“, Verkamaðurinn 27. sept. 1941,
bls. 1.
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 57