Saga - 2009, Blaðsíða 162
landið undir Noregskonung. Guðni Ágústsson hjó í þennan sama
knérunn nokkrum dögum síðar þegar hann líkti Steingrími J. Sigfússyni
fjármálaráðherra, sem mælt hafði hvað harðast fyrir samþykkt Icesave-
samningsins á þingi, við Gissur Þorvaldsson11 — og sjálfsagt hafði
Guðni þar Íslands sögu forvera síns á formannsstóli Framsóknarflokksins
í huga, þar sem „íslenzki jarlinn“ fær þá einkunn að hann hafi verið
fremstur þeirra „skammsýnu [manna], sem höfðu ætlað að byggja
upphefð sína á niðurlægingu þjóðarinnar“ í lok Sturlungaaldar.12
Líta má á hugmyndina um hina eilífu sjálfstæðisbaráttu sem eins
konar allsherjar skýringarlíkan fyrir íslensk utanríkismál, íslenska
stórsögu.13 Þar er gengið út frá því að fullveldið hafi fengist fyrir
hetjulega baráttu þjóðarinnar, undir leiðsögn sjálfstæðishetja á borð
við Jón Sigurðsson, um leið og það er talið vera í stöðugri hættu
vegna erlendrar ásælni. Athyglisvert dæmi um þessa sýn á Íslands-
söguna, og hvernig hún stýrir túlkun lesenda á heimildum, má finna
í Þjóðviljanum 17. júní 1951. Það ár var sjö ára afmæli lýðveldisins
haldið í skugga komu erlends hers til Íslands, en „landráðasamn-
ingur“ — eða „varnarsamningur“ — við Bandaríkjastjórn var und-
irritaður rétt rúmum mánuði fyrr. Þjóðviljinn var að vonum í baráttu -
ham þennan dag og mótmælti því harðlega hvernig þeir sem höfðu
svarið lýðveldinu „dýrasta eiða á morgni þess“ hefðu nú „svikið og
svívirt“ það. „Þessvegna verða Íslendingar að búa við þá þungu
skap raun á þessum þjóðhátíðardegi að land þeirra er vettvangur
bandarísks innrásarliðs, sem ógnar frelsi, menningu, tungu og mann-
dómi þessarar fámennu þjóðar.“14 Undir yfirskriftinni „Þjóðfylking
um sjálfstæðið“ skrifuðu tveir ónafngreindir höfundar sína hug-
vekjuna hvor til lesenda blaðsins í þessum sama anda. Báðar hefjast
greinarnar á tilvitnunum í skrif Jóns Sigurðssonar í Nýjum félagsritum
sem höfundunum tveimur þóttu greinilega lýsandi fyrir það ástand
sem ríkti í landinu um miðja 20. öld. Önnur klausan var tekin úr um-
guðmundur hálfdanarson162
11 Guðni Ágústsson, „Gissur jarl í Steingrímshöfði“, Morgunblaðið 16. júlí 2009,
bls. 18.
12 Jónas Jónsson, Íslands saga 2. hefti (Reykjavík: Ríkisútgáfa námsbóka, án út-
gáfuárs), bls. 55.
13 Guðmundur Hálfdanarson, „„Stöndum sem einn veggur gegn öllu erlendu
valdi.“ Hugleiðingar um söguskoðun og íslenska fullveldispólitík“, Heimtur.
Ritgerðir til heiðurs Gunnari Karlssyni sjötugum. Ritstj. Guðmundur Jónsson, Helgi
Skúli kjartansson og Vésteinn Ólason (Reykjavík: Mál og menning 2009), bls.
146–159.
14 „Bæjarpósturinn“, Þjóðviljinn 17. júní 1951, bls. 4.
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 162