Saga - 2009, Blaðsíða 81
haldið öllu fram sem hann gerði þá hefði ég nú verið felldur á próf-
inu“.86
Hert viðurlög í hegningarlögum og dómar í „dreifibréfsmálinu“
komu ekki í veg fyrir það að í apríl misstu Bretar þolinmæðina gagn-
vart ritstjórum Þjóðviljans, handtóku þá og fluttu í fangelsi til englands
þar sem þeir máttu dúsa fram á sumar uns þau straumhvörf urðu í
stríðinu að Sovétríkin gengu í lið með Vesturveldunum og mál-
flutningur sósíalista og kommúnista gerbreyttist í einu vetfangi.
Fyrir stríðslok áttu tveir „landráðadómar“ enn eftir að falla í
Hæstarétti. Í byrjun ágúst 1941 frétti Valdimar Jóhannsson, ritstjóri
vikublaðsins Þjóðólfs, að undirritaður hefði verið viðskiptasamningur
við Bretland sem væri Íslendingum afar óhagstæður en fulltrúi Breta,
útgerðarmaðurinn owen Hellyer, hagnaðist aftur á móti manna mest
á honum. Valdimar skrifaði að bragði skammargrein í blað sitt en
var ákærður og síðan dæmdur í tveggja mánaða fangelsi í aukarétti
fyrir þau landráð að deila á „trúnaðarmann erlends ríkis“ þannig að
það varðaði við 95. grein hegningarlaganna (um viðurlög við því að
smána eða móðga starfsmenn erlends ríkis). Pétur Magnússon var
verjandi Valdimars og mun hafa verið sannfærður um að það gætu
ekki talist landráð að verja málstað eigin þjóðar. en Hæstiréttur
staðfesti dóminn þó að refsivistin væri að vísu stytt um mánuð.87
Prentfrelsið var þannig skert á stríðstímum og niðurstaða Hæstaréttar
staðfesti þá hættu, sem sósíalistinn Ísleifur Högnason benti á þegar
bráðabirgðalögin um breytingu hegningarlaganna voru rædd á
Alþingi, að „ákæruvaldið … hefur alveg óbundnar hendur um að
leiða hvern mann fyrir lög og dóm sem því sýnist ef hann hefur á
einhvern hátt móðgað einhvern útlending“.88
Næsti landráðadómur var svipaðs eðlis, að breyttu breytanda. Í
febrúar 1943 birtist í breska blaðinu Fishing News grein undir dulnefni
þar sem Íslendingar voru sakaðir um að okra á fisksölu til Bretlands
og „auðgast á annarra fórnum“. Skrifin vöktu reiði á Íslandi og
Andreas Godtfredsen, danskur ríkisborgari sem hafði lengi stundað
síldarkaup og önnur viðskipti í landinu, var fljótlega grunaður um
að hafa samið „níðgreinina“. Hann játaði og í september var hann
„þeir fólar sem frelsi vort svíkja“ 81
86 Pétur Pétursson, „enn af dreifibréfsmálinu“, Morgunblaðið 29. okt. 2000, bls. 24
(b-hluti).
87 Hæstaréttardómar 1941, bls. 257–259 (nr. 72/1941), og Gylfi Gröndal, Ég skrifaði
mig í tugthúsið. Valdimar Jóhannsson bókaútgefandi segir frá (Reykjavík: Forlagið 1995),
bls. 163–173.
88 Alþingistíðindi B 1941, d. 313 (umræður 8. maí 1941).
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 81