Saga - 2009, Blaðsíða 140
snemma eða seint út af sporinu, eða lágu kannski velgengni og hrun
íslensks fjármálalífs í því að það var aldrei á neinu sýnilegu spori heldur
óð stjórnlaust áfram út í nóttina? Sú sögutúlkun, sem gerir ráð fyrir
að rætur hrunsins megi rekja til ársins 2006, verður annars eðlis en sú
sem rekur upphaf þess aftur á tíunda áratug síðustu aldar. Að sama
skapi birtist hrunið okkur í annarri mynd ef það blundaði eins og óvirk
veira í íslenskri skapgerð eða í landlægri spillingu stjórnkerfis og stjórn-
málaflokka, en blossaði svo upp þegar réttu skilyrðin voru fyrir hendi.
kóróna fáeinir dagar í október 2008 lífsverk tuga ef ekki hundraða
hugmyndafræðinga, stjórnmálamanna og athafnafólks?
Í upphafi skyldi endinn skoða. Þennan málshátt má einnig skilja
á þá leið að skoða endalokin fyrst, áður en nokkuð annað er gert.
endalokunum er þá ætlað að skilgreina og hafa áhrif á þá aðferð sem
notuð er til þess að lýsa atburðarásinni allri. Í kaflanum „Meistaraflétta
Freuds — líkan fyrir frásagnir“ varpar bandaríski bókmennta fræð -
ingurinn Peter Brooks fram þeirri áleitnu spurningu, sem býr í orðum
Ásgeirs, hvort allar frásagnir séu ekki í eðli sínu minningargreinar,
hvort skilningur okkar á sögulokum sé ekki alltaf mótaður af hinum
mannlegu endalokum, dauðanum.78 Þessi hugmynd er gamalkunn
úr bókmenntum, t.d. sagði Byron lávarður í ljóðasögunni Don Juan
„alla harmleiki enda í dauða, / alla gamanleiki í hjónabandi“,79 sem
var reyndar nokkurn veginn hið sama í huga enska skáldsins, en
hann lagði dauða og hjónaband að jöfnu. Í hruninu býr þá fullnusta
áranna á undan og saga þeirra getur aldrei orðið annað en minn-
ingargrein um óumflýjanleg endalokin.
en er sú stórbrotna saga sem leiddi Íslendinga að hruninu kóm-
ísk, tragísk, eða kannski írónísk?80 eins og fram hefur komið hafa
margir viljað horfa til íslenskra hetjubókmennta þegar skýra hefur
guðni elísson140
78 Ég ræði þetta nánar í inngangi mínum að íslenskri þýðingu á grein Brooks, sjá
Ritið 2/2002, bls. 165–168. Grein Peters Brooks „Meistaraflétta Freuds — Líkan
fyrir frásagnir“ er að finna á síðum 169–190. Þýð. Brynja Magnúsdóttir.
79 Lord Byron, Don Juan, 3. kviða, línur 65–66: „All tragedies are finished by a
death, / All comedies are ended by a marriage“.
80 Hayden White hefur dregið fram þær bókmenntalegu formgerðir sem liggja
undir yfirborði sögulegra texta, m.a. í Metahistory (Baltimore og London: The
Johns Hopkins University Press 1985 [1973]) og í greinasafninu Tropics of Discourse:
Essays in Cultural Criticism (Baltimore og London: The Johns Hopkins University
Press 1985 [1978]). Í Metahistory flokkar hann raunsæi í söguritun nítjándu aldar
niður í rómönsur, gamanleiki, harmleiki og satírur. Plássins vegna verður ekki
leitast við að fylgja greiningu hans eftir þó svo að hér á eftir verði minnst á
harmleiki og gamanleiki í sögulegri túlkun hrunsins.
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 140