Saga - 2009, Blaðsíða 83
árið 1947. Rétturinn þyngdi uppkveðna refsingu í öllum tilfellum
en sýndi því að vísu skilning að sakborningar höfðu mátt búast við
„harðræðum“ ef þeir synjuðu kröfum Þjóðverja um njósnir eða önnur
viðvik. Slík rök þóttu þó ekki geta leitt til sýknu. Dómarar Hæstaréttar
vísuðu í herverndarsamning Íslands og Bandaríkjanna árið 1941 og
seinni málsgrein 89. greinar hegningarlaga (um liðsinni við fjand-
menn íslenska ríkisins í ófriði) auk 93. greinar (um njósnir fyrir er-
lent ríki): „Bandaríkin [höfðu] gerst styrjaldaraðili og mátti því telja
ófrið vofa yfir Íslandi þótt það land væri ekki þátttakandi í styrj-
öldinni. Fræðsla er veitt væri óvinaríki Bandaríkjanna um hervarnir
þeirra á Íslandi miðaði þess vegna að því að veikja viðnámsþrótt ís-
lenska ríkisins.“92
Nær óhugsandi var að hinir ákærðu fengju aðeins að sleppa með
skrekkinn, hverjar sem málsbætur þeirra voru. Athafnir þeirra voru
misalvarlegar en gátu þó mun frekar talist til landráða og atlögu að
ytra öryggi ríkisins en sum þau afbrot síðustu ára sem voru talin falla
undir ákvæði landráðakafla hegningarlaganna.
Þess er samt líka að geta að aðrir Íslendingar sem gerðust sekir
um landráð í styrjöldinni sættu í raun vægri eða engri refsingu fyrir
brot sín. einn þeirra, Björn Sv. Björnsson, hafði gerst liðsmaður SS af
fúsum og frjálsum vilja. Hann hefði væntanlega verið ákærður fyrir
landráð í Danmörku ef ekki hefði komið upp misskilningur innan
stjórnkerfisins þar, og auk þess höfðu óskir ráðamanna hérlendis um
að fara mildum höndum um son forseta lýðveldisins eflaust sitt að segja.
Í Noregi hafði Ólafur Pétursson unnið fyrir þýsku leyniþjónustuna og
var dæmdur í aukarétti þar í 20 ára hegningarvinnu fyrir landráð
auk annarra glæpa. Saksóknari hafði krafist lífstíðardóms og hug-
leiddi jafnvel að leita eftir dauðarefsingu. Svo fór að Ólafi var vísað
úr landi, að nokkru fyrir tilstilli íslenskra stjórnvalda, og kom hann
undir sig fótunum hérlendis.93 Líklega hefðu örlög Björns og Ólafs
orðið önnur og verri hefðu þeir ekki notið góðvildar íslenskra vald-
hafa.
„þeir fólar sem frelsi vort svíkja“ 83
92 Hæstaréttardómar 1947, bls. 3 (nr. 49/1946), 189 (nr. 51/1946) og 447 (nr. 50/1946).
93 Ásgeir Guðmundsson, Berlínar-blús. Íslenskir meðreiðarsveinar og fórnarlömb
þýskra nasista (Reykjavík: Skjaldborg 1996), bls. 11–140, einkum bls. 50–53, 66,
136–137 og 158–159. Sjá einnig Ásgeir Guðmundsson og Önundur Björnsson,
Með kveðju frá Sankti Bernharðshundinum Halldóri, bls. 277–278, og Nanna
Rögnvaldardóttir, Ævi mín og sagan sem ekki mátti segja. Endurminningar Björns
Sv. Björnssonar (Reykja vík: Iðunn 1989).
Saga haust 2009 UMBROT NOTA-1_Saga haust 2004 - NOTA 25.11.2009 12:44 Page 83