Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Page 81
TMM 2010 · 4 81
Jón Yngvi Jóhannsson
Lesið í skugga hrunsins
Um skáldsögur ársins 2009
Árinu 2008 lauk með hruni og bókaárið 2009 byrjaði með bókum um
hrun. Þegar leið fram á vorið fjölgaði bókum um efnahagshrunið og
þegar kom fram á sumar var komið sérstakt útstillingarborð í sumum
bókabúðum með kreppubókum. Þar voru bækur eftir sagnfræðinga,
rithöfunda og blaðamenn en líka falleraða verðbréfasala, hagfræðinga
og viðskiptafræðinga. Þegar undirritaður var spurður á árlegum fundi
norrænna fræðiritahöfunda hver hefðu orðið fyrstu áhrif hrunsins á
stöðu fræðirita í íslensku samfélagi og menningu var ekki annað hægt
en svara því til að þau hefðu verið bærileg. Sjaldan hafa fræðirit af ýmsu
tagi verið jafn áberandi í íslenskri umræðu og þótt gæði hrunbókanna
væru ansi misjöfn sönnuðu þær eftirminnilega að bækur skipta ennþá
máli. Það kom á daginn að blogg og blaðagreinar dugðu ekki til.
Þjóðin þurfti bækur til að hugsa sig í gegnum fyrsta áfallið sem fylgdi
hruninu.
En í þessari grein verður fyrst og fremst fjallað um þær bækur
síðasta árs sem gangast við því að vera skáldaðar. Umfjöllun um
hrunbækurnar bíður betri tíma, en hér er satt að segja komið frábært
og knýjandi tækifæri til að ráðast í löngu tímabærar rannsóknir og
greiningu á íslenskum fræðiritum. Það er fyllsta ástæða til að velta
fyrir sér sjónarhorni og efnistökum þeirra sem fyrstir fjölluðu um
efnahagshrunið í bókum, stílbrögðum þeirra, persónusköpun og vali á
söguefnum.1
Efnahagshrunið hafði líka töluverð áhrif í heimi fagurbókmenntanna,
hrunið varð fjölda skáldsagnahöfunda efniviður á síðasta ári. Og hrunið
snerti ekki bara höfunda skáldsagna. Ég held það sé óhætt að fullyrða
að það hafði djúpstæð og rækileg áhrif á lesendur þeirra einnig. Eða
hvernig er hægt að lesa skáldsögu, smásögu eða ljóð sem kom út á árinu
2009 öðruvísi en í ljósi hrunsins? Á tímum eins og þeim sem við lifum
nú lesa menn eins og í stríði eða undir hernámi, allt verður að táknum,