Tímarit Máls og menningar - 01.11.2010, Side 84
J ó n Yn g v i J ó h a n n s s o n
84 TMM 2010 · 4
ekkert í bægslagangi mínum við að afsanna kenningar sem þeim hefði
aldrei dottið í hug að taka undir. „Þetta er bara saga af gömlum manni
sem fer upp á heiði í vondu veðri að leita að kindum,“ sagði eldri maður
á aftasta bekk og taldi málið þar með útrætt. Undir þetta má alveg taka.
Og þá mætti líka segja að Harmur englanna sé bara saga um tvo menn
sem ferðast um firði og fjallvegi í snjókomu og illviðri.
Sagan er framhald af Himnaríki og helvíti sem kom út fyrir tveimur
árum síðan. Þar er sagt frá sömu persónum og sögumenn eru þeir sömu.
Þeir taka til máls í upphafi sögu og mynd þeirra er farin að skýrast. Þetta
eru hinir dauðu úr þorpinu sem segja frá. Þeir eru staddir í einhvers
konar limbói, geta hvorki komið né farið, eru dauðir en þó fastir við
gömul heimkynni sín. Sögudraugarnir eru engir ærsladraugar – grunn
tónninn í frásögnum þeirra og vangaveltum er tregi.
Eins og í fyrri sögunni eru skáldskapurinn, lífið og dauðinn og önnur
stór og voldug hugtök í forgrunni. Í upphafi sögu erum við stödd í þorpi á
Vestfjörðum, ólíkt verbúðinni sem strákurinn hafðist við í upphafi fyrri
bókarinnar er hann hér kominn í þéttbýli þar sem er fjölbreytt mannlíf,
verslanir og veitingahús. Hann eygir líka möguleika á heimi handan
þess sem hann hefur áður kynnst, fyrirheit um menntun eru meðal
þess sem kemur upp í hendur hans á nýju heimili á gistihúsi hinnar
dularfullu Geirþrúðar. Áður en strákurinn fær færi á því að mennta
sig og kynnast heimi bóka og þeirrar menningar sem liggur handan
fjallanna þarf hann þó að fara í ferðalag ekki ósvipað svaðilförinni í
fyrri bókinni. Póstur á leið yfir Djúpið þarf fylgd og strákurinn er til
valinn fylgdarmaður. Ferð þeirra saman og þar með bókin í heild er eins
og millikafli í sögu stráksins og lesandinn er litlu nær í lok bókar um
það hvort hann kemst einhverntíma á leiðarenda. Það er augljóslega heilt
bindi eftir sem vonandi kemur sem fyrst.
Ferð stráksins um firði og yfir fjöll í samfylgd hins skapstygga og sjó
hrædda pósts er óralöng og gæti virkað langdregin á einhverja lesendur,
en hún er mögnuð upplifun þeim lesanda sem nær takti við hana. Hann
villist með stráknum og ferðafélaga hans, jafnvel þannig að sá lesandi
sem þykist þekkja sig í umhverfi sögunnar á Vestfjörðum missir áttanna
og hverfur í hríðina.
Sögumenn eru ekkert að flýta sér og þeir gera þá kröfu til lesandann
að hann geri það ekki heldur. Á leiðinni eru ýmis tilefni til að velta fyrir
sér lífinu, snjónum, dauðanum og eilífðinni og ekki síst orðunum og
skáldskapnum. Þótt hrynjandi bókarinnar sé hæg byggist upp spenna í
huga lesandans, þótt tilfinningarnar geti líka verið blendnar; á köflum
langar mann til að bylurinn haldi áfram og fer að treina sér síðurnar.