Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Blaðsíða 37
S u n n a n v i n d u r
TMM 2018 · 4 37
Þegar við mamma komum aftur upp stóð ókunnug kona á stofu-
gólfinu og skrifaði hratt í svarta möppu. Hún var ákveðin á svip, brúnt
hárið bundið í þéttan hnút á hnakkanum, eldrauðar varirnar kipraðar
saman af einbeitingu. Úlfhildur sat niðurlút í gulum stól og pabbi stóð
við hlið hennar með krosslagðar hendur. Hann leit hvasst á mig þegar
hann sá mig nálgast en mamma gekk upp til hans og hvíslaði einhverju
í eyrað á honum. Ég hélt mig í hæfilegri fjarlægð og þegar Úlfhildur leit
upp brosti ég til hennar og sendi henni uppörvandi augnaráð. Konan
hélt áfram að skrifa en eftir nokkur augnablik skellti hún möppunni
saman og leit upp. „Eins og staðan er núna er ekkert sem við getum gert
fyrir hana. Það þarf að lýsa eftir foreldrum hennar og ef þeir finnast ekki
þarf að gera ráðstafanir um fóstur. Auk þess þarf að finna út hvaða mál
stelpan talar og finna túlk.“ Konan spurði mömmu og pabba hvort það
væri í lagi að Úlfhildur yrði hjá okkur í nokkrar nætur í viðbót á meðan
greitt yrði úr þessu öllu saman. Mamma og pabbi hvísluðu eitthvað sín á
milli og samþykktu að lokum með semingi. Ég varð himinlifandi, lang-
aði mest að hlaupa til konunnar og faðma hana en hélt þó aftur af mér.
Áður en hún fór tjáði hún okkur að það kæmi tungumálasérfræðingur
til okkar daginn eftir til að reyna að finna út úr tungumáli Úlfhildar.
Seinna um kvöldið, þegar við vorum búin að hátta hvíslaði Úlfhildur
einhverju til mín. Ég hélt að hún væri að segja mér eitthvað á sínu eigin
tungumáli og það var ekki fyrr en hún endurtók orðið að ég skildi að
hún var að segja takk á íslensku. „Ekkert að þakka,“ hvíslaði ég til baka.
Morguninn eftir vorum við að horfa á sjónvarpið þegar dyrabjöll-
unni var hringt. Í sjónvarpinu var þáttur um norðurslóðir, horaðir og
skjálfandi ísbirnir hírðust á litlum jökum sem rak yfir kaldranalegt
íshafið. Bankað var létt á hurðina á sjónvarpsherberginu og mamma
steig inn, unglegur maður í síðum frakka, með kringlótt gleraugu kom
á eftir henni. Mamma kynnti manninn fyrir mér og Úlfhildi og bauð
honum sæti í sófanum. Hún slökkti á sjónvarpinu og maðurinn tók
að ávarpa Úlfhildi og reyna að fá hana til þess að segja eitthvað. Hann
benti á sjálfan sig og kynnti sig, benti svo á Úlfhildi og lyfti höndum
spyrjandi. Úlfhildur sagði nafnið sitt og maðurinn hallaði sér forvitinn
á móti henni. Hann tók upp símann sinn og bað hana að endurtaka
nafnið. Maðurinn hélt áfram að spyrja Úlfhildi spjörunum úr í um það
bil klukkutíma, tók upp allt sem hún sagði og punktaði niður hjá sér þar
til honum fannst komið nóg. Á leiðinni út spurði mamma hann hvort
hann væri búinn að komast að því hvaða tungumál Úlfhildur talaði en
maðurinn hristi bara hausinn og muldraði eitthvað um velsku og finnsk-
úgrísk tungumál.
TMM_4_2018.indd 37 6.11.2018 10:22