Tímarit Máls og menningar - 01.11.2018, Page 59
„ Þa ð a ð s k r i fa b æ k u r
TMM 2018 · 4 59
Í bókinni má finna margs konar vald, bæði þetta vald yfir sjálfinu og
svo valdið sem felst í norminu. Hverjar eru þínar hugmyndir um vald? Er
valdið alltaf í höndum þess sem tilheyrir norminu eða fer það eftir sam-
hengi og kannski stétt?
Vald hangir alltaf saman við aðstæður. Ég man eftir að hafa séð í íranskri
heimildarmynd fyrir mörgum árum hjón þar sem þetta varð svo skýrt – á
heimili þeirra réð hann einfaldlega í stofunni en hún í eldhúsinu. Í stofunni
var hún lúpuleg og hann stórkarlalegur en í eldhúsinu hafði hún hann að
grimmilegu háði og hann hrökklaðist bara út. Þetta er auðvitað öfgakennt
dæmi og breytir engu um veruleikann sem mætti þeim hjónum fyrir utan
veggi heimilisins. En það skiptir hins vegar máli hvaða samfélagi og sam-
félögum maður tilheyrir, og í hvaða félagslega rými maður er staddur hverju
sinni. Sjálfsvirðing hangir til dæmis saman við æru og æru fær maður af
tilteknu samfélagi. Það skiptir mig engu máli hvað einhverjum heimdell-
ingum finnst um mig vegna þess að ég á svo fáa snertifleti við þann heim – en
lopapeysulýðurinn er bara ég, mín sjálfsmynd, minn heimur, og þegar hann
sussar á mig tek ég andköf. Það er þá sem ég verð átakafælinn. Samt er miklu
líklegra að heimdellingarnir endi í valdastöðum í þjóðfélaginu. Það eru bara
ekki valdastöðurnar sem skipta mig mestu – þeir verða ekki forleggjarar, rit-
stjórar, stjórnendur listahátíða eða í stjórn listamannalauna.
Það má segja að valdið sé í höndum þess sem tilheyrir norminu – ríkjandi
meirihluta – en það séu ólík norm ríkjandi eftir samfélögum. Og þá þarf
maður ekki að leita alla leiðina til Íran. Það gilda ekki sömu norm á Kaffi-
barnum og á Landsbókasafninu, í Öskjuhlíðinni og Vesturbæjarlauginni, á
Ísafirði og Egilsstöðum, á Hlemmi Mathöll og Granda Mathöll. Það spilar
ekki endilega með þér að vera stórriddari í Frímúrarareglunni á fundi hjá
Hernaðarandstæðingum. Allt okkar vald er bundið einhverju tengslaneti og
tengslanetið hangir á ærunni. Ef þú segir eða gerir eitthvað vitlaust geturðu
skyndilega staðið uppi einn og valdalaus í heiminum.
Hans Blær hefur sparkað í alla sem nálægt hánum standa og talið sig sjálf-
stætt – en þegar til kastanna kemur hefur hán samt reitt sig á stóra samfélagið,
gleðina sem einhver andlitslaus múgur hefur af grimmum ólíkindalátunum
í hánum, skandalaþörf múgsins, og það er ekki fyrren hán loks gengur fram
af þeim múg að hán glatar valdinu og þarf að leggja á flótta.
Já, vald fer að miklu leyti eftir samhengi hverju sinni. Til dæmis er þægi-
legra að tilheyra minnihlutahópi þegar maður mætir á fund innan sam-
taka þess hóps – ekki vera í minnihluta. En annars er yfirleitt þægilegra
að vera „bara venjulegur“, og þú skilur hvað ég á við með þessu orði – þótt
skekkjumörkin séu einhver – og þar liggur normið. Og í norminu felst valdið,
almennt séð.
TMM_4_2018.indd 59 6.11.2018 10:22