Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Blaðsíða 85
RAnnVEIG SVERRISDóTTIR OG KRISTÍn LEnA ÞORVALDSDóTTIR
84
væru í raun fullkomin mál. Abbé de l'Epée sem stýrði fyrsta almenna skóla
fyrir heyrnarlausa í París leyfði þar notkun fransks táknmáls. Hann bjó þó
til táknakerfi (e. methodical signs) sem byggði á táknum franska táknmálsins
en bætti við auka táknum til að sýna ýmsa málfræði sem fyrirfannst í franska
raddmálinu, til dæmis viðskeyti sem breyttu sögnum í lýsingarorð. Þetta
táknakerfi var notað í kennslustundum en ekki franskt táknmál.40 Þessi
stefna, eða viðhorf, að táknmál séu ófullkomin og að þau þurfi að „bæta“
svo þau fylgi kerfi nágrannaraddmáls er víða þekkt en byggir á mikilli van-
þekkingu á uppbyggingu táknmála. Ekki eingöngu eru slík kerfi á skjön
við eðli myndunar og þróunar tungumála heldur er hér viðhaldið þeirri
hugmyndafræði að táknmál séu ekki tungumál. Þessi hugmyndafræði hefur
verið kölluð dialectization41 og vísar í þessu samhengi til þeirrar tilraunar
að aðlaga lifandi (e. excisting) táknmál að kerfi og formgerð nágrannaradd-
máls.
Árið 1880 var haldin í Mílanó alþjóðleg ráðstefna kennara heyrnarlausra
barna þar sem ákveðið var að banna táknmál alfarið í kennslu heyrnarlausra
barna og að einblína á kennslu raddmála.42 Þarna hófst raddmálsdýrkun,
myrkur tími í sögu táknmálsfólks um heim allan. Langur tími leið þar til fólk
áttaði sig á alvarlegum afleiðingum bannsins og að táknmál væru viðurkennd
sem mannleg mál. Enn þann dag í dag er víða ríkjandi málhugmyndafræði
sem álítur táknmál hjálpartæki en ekki tungumál.43 Í þessu tilliti er gjarnan
talað um ólík sjónarhorn á heyrnarleysi (og þar með táknmál), hið læknis-
40 Sherman E. Wilcox, Verena Krausneker og David F. Armstrong, „Language Poli-
cies and the Deaf Community“, The Cambridge Handbook of Language Policy, ritstjóri
Bernard Spolsky, Cambridge: Cambridge University Press, 2012, bls. 374–395, hér
bls. 375–376.
41 Sama rit, sami staður. Wilcox o.fl. fylgja hér greiningu Harlan Lane á dialectiza-
tion, „A Chronology of the Oppression of Sign Language in France and the United
States“, Recent Perspectives on American Sign Language, ritstjórar Harlan Lane og
François Grosjean, Hillsdale, nJ: Lawrence Erlbaum, 1980, bls. 119–161.
42 Harlan Lane, Robert Hoffmeister og Ben Bahan, A Journey into the Deaf-World, San
Diego, CA: DawnSignPress, 1996, bls. 61.
43 Ronice Müller de Quadros, „Language Policies and Sign Languages“, The Oxford
Handbook of Language Policy and Planning, ritstjórar James W. Tollefson og Miguel
Pérez-Milans, Oxford: Oxford University Press, 2018, bls. 1–21, https://doi.
org/10.1093/oxfordhb/9780190458898.013.15, hér bls. 4. Sjá einnig hjá Douglas C.
Baynton, Forbidden Signs. American Culture and the Campaign Against Sign Language,
London: The University of Chicago Press, 1996; Maartje de Meulder, „„So why do
you sign?“ Deaf and hearing new signers, their motivation and revitalisation policies
for sign languages“, Applied Linguistic Review, 2018, https://doi.org/10.1515/appli-
rev-2017-0100.