Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Blaðsíða 102
UM MÁLSTEFnU ÍSLEnSKS TÁKnMÁLS
101
skemmtiefni í sjónvarpi svo táknmálsbörnin hafi á öllum tímum aðgang
að máli/málumhverfi sem hæfir aldri þeirra og máltöku á hverjum tíma og
hverju skólastigi. Til þess að þetta megi verða þurfi sjóðir á vegum ráðu-
neyta og sveitarfélaga að styrkja útgáfu táknmálsefnis af ýmsu tagi.133 Þær
aðgerðir sem hér hafa verið nefndar snúa í meiri mæli að menningu en
var í aðgerðum er snúa að viðhorfum. Hér er því litið á ÍTM sem menn-
ingarverðmæti og menningararf sem halda þurfi á lofti og kynna táknmáls-
fólki. Þrátt fyrir að hér sé um að ræða aðgerðir til að tryggja aukið málum-
hverfi og ílag munu þær engu að síður, komi þær til framkvæmda, auka veg
menningar ÍTM.
Mikilvægi málumhverfis á heimili barns verður ekki dregið í efa en
engu að síður gegnir skólinn einnig veigamiklu hlutverki, mun meira í
tilviki táknmálsbarna vegna sérstakra aðstæðna í útbreiðslu málsins sem
getur orðið til þess að börnin hafi ekki aldurssvarandi færni í ÍTM við
upphaf skólagöngu.134 Til að skólinn uppfylli þarfir táknmálsbarns um gott
og ríkt málumhverfi þarf þar að vera táknmálssamfélag sem samanstendur
af fleiri táknmálsbörnum (jafningjum) og táknmálstalandi fagfólki. Þar
þarf ÍTM að vera kennt sem fyrsta og annað mál og kenna þarf á ÍTM
svo barnið fái tækifæri til að læra um málið sitt og nota það í mörgum
umdæmum. Um helmingur þeirra aðgerða sem snúa að máltöku fjallar á
einn eða annan hátt um ÍTM í skóla- eða menntakerfinu, enda eiga tákn-
málsbörn samkvæmt lögum rétt á því að læra og nota ÍTM135 og ríki og
sveitarfélögum er gert að styðja við menningu og menntun þeirra sem það
nota.136 Í MÍTM er tiltekið að efla þurfi sérhæfingu kennara táknmálsbarna
með því að búa til nám í táknmálskennslufræði, að gera eigi kröfu um af-
burðafærni fagfólks sem starfar í máltöku- og námsumhverfi barnanna og
fagfólki verði gert kleift að endurmennta sig.137 Þetta er, eins og að framan
var rætt, til að tryggja sem best málumhverfi táknmálsbarna, ekki síst þar
sem ÍTM er oftast annað málið á heimili barnanna og minnihlutamál í
samfélaginu. Einnig getur betri kunnátta í málinu og þekking á því og
menningarheimi þess hjá kennurum og starfsfólki skóla haft jákvæð áhrif á
133 B9, B13.
134 „Skýrsla Málnefndar um íslenskt táknmál um stöðu þess 7. júní 2013“, bls. 9, sótt
24. nóvember 2022 af https://www.stjornarradid.is/media/menntamalaraduneyti-
media/media/ritogskyrslur/skyrsl_malnef_isl_taknmal_2013.pdf.
135 Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011, 3.gr.
136 Lög um stöðu íslenskrar tungu og íslensks táknmáls nr. 61/2011, 5. gr.
137 B5, B10, B11.