Ritið : tímarit Hugvísindastofnunar - 01.10.2022, Blaðsíða 195
SIGuRðuR KRISTInSSOn
194
Sem dæmi um viðleitni alræðisafla til að takmarka lýðræðisvæna þætti
háskólastarfs má nefna að á 18. öld studdi sænska konungsríkið við notkun
latínu í háskólum til að koma í veg fyrir „útbreiðslu hættulegra hugmynda
um guðfræði og stjórnmál til almennings“.109 Frelsi almennings til gagn-
rýninnar hugsunar og skilningsleitar var greinilega talið ógna þeirri heims-
mynd sem réttlætti vald konungsins. Af sömu ástæðu einskorðuðu háskólar
í Sovétríkjunum starfsemi sína við kennslu, en rannsóknir voru hafðar í sér-
stökum stofnunum og mjög háðar pólitískri stýringu. Dæmi af svipuðum
toga sjást greinilega í alræðisríkjum á 21. öld þar sem háskólar njóta hvorki
sjálfræðis né akademísks frelsis og orðræða um borgaralega ábyrgð háskóla
einskorðast við þjónustu við samfélagið og þarfir atvinnulífsins, án þess að
lykilhugtök lýðræðismenntunar á borð við ígrundun, gagnrýna hugsun, opið
hugarfar og samræður í skólastofunni komi þar neitt við sögu.110 Dæmi sem
þessi benda til þess að andlýðræðislegt stjórnarfar muni eiga erfitt uppdráttar
í ríkjum þar sem starfræktir eru háskólar með þau einkenni sem tengjast lýð-
ræðislegu framlagi háskólastarfs. Af sömu ástæðu má leiða líkur að því að án
slíkra háskóla myndi lýðræðislegt stjórnarfar eiga erfitt uppdráttar til lengri
tíma litið. Andlýðræðisleg stjórnvöld telja valdi sínu ógnað af háskólum sem
rækta lýðræðishæfni og sannsögli, ýta undir lýðræðismenningu, eru óháðir
boðvaldi stjórnvalda og virða akademískt frelsi. Háskólar sem vanrækja þessa
þætti draga framlag sitt til lýðræðisins til baka og grafa undan öryggi þess.
Af þessum sökum virðist réttara að líkja lýðræðisframlagi háskóla við nauð-
synlegt framlag vængsins til þess að flugvélin haldist á lofti en við ónauðsyn-
legt (en verðmætt) framlag hvers söngvara til þess að kórinn búi til fallegan
hljóm eða framlag borðfótar til stöðugleika borðsins. Án framlags háskóla
myndi lýðræðinu fatast flugið.
Innra lýðræðisgildi háskóla
Svo gæti virst sem lýðræðislegt gildi háskóla hljóti að einskorðast við ytra
gildi og geti ekki verið hluti af innra gildi þeirra. Innra gildi hlutar eða fyrir-
109 Inge Jonsson, „universties, Research and Politics in Historical Perspective“, The
European Research University. An Historical Parenthesis, ritstj. Kjell Blückert, Guy R.
neave and Thorsten nybom, new York: Palgrave Macmillan, 2006, bls. 51–60, hér
bls. 54–55.
110 Walid Moussa og Kamal Abouchedid, „new Technologies and their Implications
for Higher Education’s Democratic Mission: Theme from the Arab Region“, High-
er Education for Democratic Innovation (vol. 21), ritstj. Sjur Bergan, Tony Gallagher
og Ira Harkavy, Strasbourg: Council of Europe, 2016, bls. 219–232.