Andvari - 01.01.1994, Síða 31
andvari
GEIR HALLGRÍMSSON
29
Borgarstjóratíð Geirs Hallgrímssonar einkenndist af miklum fram-
kvæmdum á vegum Reykjavíkurborgar, sérstaklega í gatnagerð.
Breyttust stræti borgarinnar á undraskömmum tíma úr holóttum
malargötum í greiðfærar, malbikaðar brautir. Samþykkt var tíu ára
áætlun um fullnaðarfrágang gatna í Reykjavík árið 1962. Geir tók
skipulagsmál mjög föstum tökum, og var nýtt aðalskipulag sam-
þykkt, sem gilda skyldi frá 1963 til 1983, en þá var gert ráð fyrir, að
íbúar höfuðborgarsvæðisins yrðu orðnir 150 þúsund alls. Þetta að-
alskipulag var mikið að vöxtum, frumsmíð, sem vakti athygli víðar
en hér á landi. Heitt vatn var leitt í hvert hús í borginni, en sú fram-
kvæmd hafði hafist á stríðsárunum. Ásýnd Reykjavíkur varð bjartari,
snyrtilegri og líflegri. Árbæjarhverfi reis og síðar Breiðholtshverfi, og
hafnar voru framkvæmdir við höfn í Vatnagörðum, Sundahöfn.
Glæsileg íþróttamannvirki voru reist í Laugardal, hin mikla sundlaug
þar, leikvangurinn og Laugardalshöllin, sem einnig var notuð fyrir
ráðstefnur og ýmsar samkomur. Þá var Borgarspítalinn reistur í tíð
Geirs Hallgrímssonar. Enn er þess að geta, að Landsvirkjun, sam-
eignarfyrirtæki Reykjavíkurborgar og ríkisins, var stofnuð, en það
fyrirtæki gerði mikla virkjun við Búrfell og seldi rafmagnið til nýs ál-
vers í Straumsvík, sem svissneskt stórfyrirtæki átti. Var það mikil
lyftistöng atvinnulífs á Reykjavíkursvæðinu. En um leið og Geir var
ódeigur við framkvæmdir, gætti hann þess vandlega, að fjárhagur
borgarinnar færi ekki úr böndum. Gunnlaugur Pétursson, þá borgar-
ritari, sagði eitt sinn við mig: „Þekking hans Geirs á borgarrekstrin-
um hætti aldrei að koma mér á óvart. Ef örlítil nál tapaðist í hinum
gríðarlega heystakki borgarinnar, var eins víst, að borgarstjórinn
einn vissi, hvar hana var að finna.“
Þótt Geir Hallgrímsson væri vinsæll og vel metinn borgarstjóri í
Reykjavík, tapaði Sjálfstæðisflokkurinn fylgi í þeim þrennum borgar-
stjórnarkosningum, sem hann gekk til undir forystu Geirs. Var ein
meginástæða þess vafalaust, að flokkurinn átti aðild að ríkisstjórn,
en reynslan sýnir, að þá versnar oft vígstaða hans í bæjarstjórnar-
kosningum, þótt ekki sé það einhlítt. Árið 1962 hlaut flokkurinn
52,8% atkvæða og níu borgarfulltrúa kjörna, missti einn. Það var
nýlunda í þeim kosningum, að Geir hóf að halda hverfafundi víðs
vegar um Reykjavík, þar sem hann sat fyrir svörum um hugðarefni
borgarbúa. Kynntust Reykvíkingar þar yfirburðaþekkingu Geirs á
borgarmálum. Ég sótti nokkra hverfafundi síðar í borgarstjóratíð