Andvari - 01.01.1994, Side 53
andvari
GEIR HALLGRÍMSSON
51
Reykjavíkur, og sagði Geir Hallgrímsson við mig af því tilefni, að þá
hefði hann orðið glaðastur á stjórnmálaferli sínum. Þau Erna komu
til okkar Ástríðar á Lynghagann þá um nóttina og gáfu okkur bók
Knuds Zimsens borgarstjóra, með fallegri áritun. Bókin er mér dýr-
gripur, en þessir þrír borgarstjórar sem þarna lentu óvart saman á
einni bók, stjórnuðu Reykjavík í 40 ár og höfðu hver með sínum
hætti mikil áhrif á mótun hennar og þróun.
En skammt er stórra högga í milli. Geir Hallgrímsson varð fyrir
enn einu áfallinu á stjórnmálaferli sínum, þegar sjálfstæðismenn í
Reykjavík gengu til prófkjörs haustið 1982 um skipan framboðslista
fyrir þingkosningarnar 1983. Þá var að kröfu Alberts Guðmunds-
sonar notuð sama aðferð og 1978, að þátttakendur í prófkjörinu
krossuðu við frambjóðendur, svo að sá lenti í efsta sæti, sem flesta
fengi krossana. Þessi aðferð er mjög vafasöm, ef velja á milli fleiri en
tyeggja frambjóðenda. Úrslitin endurspegluðu ekki raunverulegan
vilja þátttakenda um það, hvernig listinn skyldi skipaður. Úrslitin í
prófkjörinu urðu söguleg: Albert Guðmundsson fékk flestar merk-
ingar og lenti í efsta sæti, en Geir Hallgrímsson hrapaði niður í sjö-
unda sæti, sem var alls ekki öruggt þingsæti, en aðeins komust fimm
efstu menn á framboðslista Sjálfstæðisflokksins á þing í næstu kosn-
ingum á undan. Geir fékk fréttirnar af þessum úrslitum að kvöldi 30.
nóvember 1982, þar sem hann var staddur í samkvæmi hjá Birni
Hallgrímssyni, bróður sínum. Þótt hann bæri sig karlmannlega eins
°g jafnan og léti ekki á sér sjá nein svipbrigði, sagði hann nánustu
trúnaðarmönnum sínum þá um kvöldið og nóttina, að eðlilegast væri
að kalla saman landsfund þegar í febrúar á komandi ári, þar sem
hann segði formannsstöðu í Sjálfstæðisflokknum lausri og drægi sig í
hlé frá stjórnmálum. Geir barst hins vegar fjöldi áskorana um að
standa einnig þennan storm af sér. Á flokksráðsfundi 3.-4. desember
1982 kvaðst Geir myndu taka sjöunda sætið á lista flokksins í
Reykjavík í komandi kosningum, þótt hann leyndi því ekki, að hann
hefði orðið fyrir miklum persónulegum vonbrigðum. Sagði hann, að
þetta hefði verið ein erfiðasta ákvörðun, sem hann hefði orðið að
taka á stjórnmálaferli sínum.