Andvari - 01.01.1994, Síða 95
KRISTINN E. ANDRÉSSON
Ur Berlínardagbók 1930
16-8-30
14. þ.m. fór ég til Hamburg til þess að taka á móti Stefáni Einarssyni.
Fann hann á Kaiserhof, þar sem hann sat yfir morgunverði. Hann var með
dálítið yfirvararskegg, er hann ætlaði að hrella konuna með eftir því sem
hann sagði. Mér þótti málrómur hans hvellari og einkennilegri en mig
minnti hann væri. Ég sá líka á hrukkum á enninu að Stefán hafði elzt. Mér
varð ónotalega við. Svona förum við, hugsaði ég. Æskan hverfur. Að öðru
leyti fannst mér Stefán hinn sami og áður, látlaus í framkomu, hægur, en
glaðlyndur og spaugsamur. Seinna sá ég, að hann var orðinn dálítið álútur,
og fannst mér hann þá líkjast föður sínum. Hann sagði mér margar sögur af
ferðalagi sínu heima úr Berufirði og upp á Fljótsdalshérað. Á sunnudags-
kvöldið (14.), er við höfðum skoðað Hagenbeck, sátum við lengi tveir við
Alster og Stefán sagði frá. Hann hafði heyrt margar sögur af Gunnari á
Fossvöllum. Stefán hefir afar gaman af slíku, einkennilegum íslenzkum
körlum og skrítnum talsháttum.
Á hótelinu las Stefán fyrir mig allt, sem hann hafði skrifað um Halldór
Kyljan [svo!] Laxness, aftur fyrir „Rauða kverið“. Síðan ræddum við lengi
um það og var orðið framorðið, þegar við sofnuðum. Ég hvatti Stefán til
þess að reyna að ljúka bók um Halldór fyrir jól og koma þannig af stað
dómum um nýjustu bókmenntirnar. Á mánudag fórum við til Kiel og gisti
Stefán hjá mér eftir að við höfðum setið hjá Nóru og Prinz um kvöldið og
spjallað um heima og geima, einkum ísland og þjóðhátíðina og síðan Am-
eríku. Snemma þann 16. fórum við til Lubeck, skoðuðum Maríukirkjuna,
Schifferhaus og komum til Berlin um kvöldið. Kona Stefáns tók á móti
okkur, og bjuggum við Passauer str. 5 hjá von Bordeaux. Næstu daga skoð-
uðum við söfn í Berlin, heimsóttum frú Kroner og fundum Þórarinn [svo]
Jónsson. Stefán lætur ekki mikið af sjálfum sér, en telur upp galla sína,
seinvirkni og tregðu. Allir vita þó hversu traustur maður, eftirtektarsamur
°g gáfaður hann er. Því geta menn t.d. veitt athygli, þegar menn eru með
honum, að það kemur í ljós að hann veit hitt og þetta, er hann talar ekki
um, ef það annars berst í tal; einkum furðaði mig, hve hann þekkti trjáteg-
undir, kunni skil á málverkum o.s.frv.