Andvari - 01.01.1994, Qupperneq 118
116
ARI PÁLL KRISTINSSON
ANDVARI
II
Til þess að unnt sé að sinna þessum mikilvæga þætti þjóðmenningarinnar,
orðatiltækjunum, er þörf aðgengilegra handbóka fyrir málnotendur. í þeim
efnum búum við miklu betur nú en fyrir örfáum árum.
í árslok 1993 kom út nýtt, viðamikið safn íslenskra orðatiltækja, Mergur
málsins (837 bls.). Jón G. Friðjónsson fjallar þar um liðlega 6000 orðatil-
tæki, aldur þeirra, uppruna, feril í málinu, breytingar á formi þeirra og
merkingu og sýnir fjölmörg notkunar- og skýringardæmi. Til að sýna dæmi
um efnistök Jóns er freistandi að velja eitt orðtak af handahófi úr bókinni.
Við getum virt fyrir okkur hvernig farið er með orðtakið reynast/vera e-m
óþægur/(erfibur) Ijár í þúfu (bls. 402).
Uppflettiorðið er Ijár. Sýnd eru kenniföll orðsins og kyn, og grunnmerk-
ing þess skýrð („bitjárn fest í orf; málmblað til að skera gras“). Þá er orð-
takið sýnt (með helstu afbrigðum í nútímamáli), þ.e.: reynast/vera e-m
óþægur/(erfiður) Ijár í þúfu. Merking orðtaksins er skýrð á þessa lund:
„reynast e-m erfiður viðfangs, vera e-m þungur í skauti; valda e-m örðug-
leikum“. Pá fylgja notkunardæmi úr nútímamáli: „Landsprófið gamla
reyndist mörgum þeim er hugðu á menntaskólanám erfiður ljár í þúfu. -
Ýmiss konar fisksjúkdómar hafa reynst fiskeldismönnum óþægur ljár í
þúfu. - Þingmaðurinn fer sínar eigin leiðir og er því formanni flokksins oft
óþægur ljár í þúfu.“ Loks er greint frá sögu orðtaksins í málinu á þessa leið:
„Elstu afbrigði orðatiltækisins eru frá 17. öld: Óhægur (stirður) Ijár íþúfum
(sl7 (GÓl 2507)) og Stirður Ijár í þúfum (sl7 (GÓl 3159)) en einnig eru
kunn afbrigðin vera e-m ekki hægur Ijár í þúfu (sl8 (OHR)); vera e-m
óþýður Ijár í þúfu (fl9 (Son 47)) og reynast e-m óþægur Ijár í þúfu (sl9
(OHR)).“ Hér kemur sem sé fram að elsta þekkta dæmið er frá síðari hluta
17. aldar og með hjálp skammstafanalykils í bókinni sér lesandinn að heim-
ildin er orðabókarverk Guðmundar Ólafssonar: Gudmundi Olaui Thesaur-
us adagiorum linguæ septentrionalis antiquæ et modernœ. Utgiven . . . av
Gottfrid Kallstenius . . . Lund 1930. Skammstöfunin „OHR“ merkir rit-
málssafn Orðabókar Háskólans. „Son“ táknar Sonur gullsmiðsins á Bessa-
stöðum (þetta eru bréf til Gríms Thomsens og varðandi hann 1838-1858,
Finnur Sigmundsson bjó til prentunar, Hlaðbúð, Reykjavík 1947). Heim-
ildatilvísanirnar taka ekki mikið pláss í textanum en mörgum er vafalaust
fengur að þeim. Loks er líkingin í orðtakinu skýrð í hnitmiðuðu máli: „Lík-
ingin er dregin af því hve erfitt er að slá í miklu þýfi.“ Undir flettiorðinu
Ijár er einnig maðurinn með Ijáinn, með viðeigandi skýringum, þar á meðal
teikningu.
Þá hygg ég að sá lesandi sem hefur ekki bók Jóns undir höndum hafi
fengið forsmekkinn að því hvernig efnistökum er háttað.