Andvari - 01.01.1994, Page 127
ANDVARI
ÞRJÁR SÖGUR ÚR FRELSISBARÁTTUNNI
125
kvenréttindahreyfingin reis í róttæku bylgjunni í kringum 1970. En hér er
rakin saga af hópi kvenna sem aldrei létu merkið falla. Ekki fer hjá því að
þrautseigja þeirri veki aðdáun hjá lesendum.
II
Sveinn Skorri er tilþrifamestur höfundanna í stíl, og kann sumum stundum
að þykja nóg um (448); „Þannig lét Benedikt vönd siðlegrar vandlætingar
ríða yfir samherja sína ef honum þótti sem örlaði á selshaus sérdrægninnar
í hugmyndum þeirra.“ Aðalgeir skrifar að jafnaði einfaldara mál, lýtalaust
og eðlilegt. Hins vegar ber svo einkennilega við að dálitlir málhnökrar eru í
sögu Kvenréttindafélagsins, sem er þó skrifuð bæði með aðstoð ritnefndar
og útgáfunefndar, að því er segir í formála (9). Orðið „eintak“ er að
minnsta kosti tvisvar haft þar sem átt er við tölublað (35 og 61). „Margt er
furðu líkt með þessum tveimur lögum . . .“ segir um vinnuhjúalöggjöf (18).
„Hún var einn stofnenda og fyrsti formaður Hvatar . . . og hafði hana á
hendi til 1954.“ (115) „Hinn almenni félagsmaður í verkamannafélögum var
upp til hópa mótfallinn öllum hugmyndum um launajafnrétti.“ (118) Orða-
lag er víða tilbreytingarlítið og innihaldssnauðar setningar of margar: „Það
er ljóst að Úur gerðu ýmsar kannanir . . segir á bls. 350, og þessi merk-
ingarlausa aðalsetning kemur að minnsta kosti 30 sinnum fyrir í bókinni
með mismunandi orðaröð. Og ekki þykir mér þessi málsgrein falleg (97):
Þegar litið er um öxl og hugað að ástæðunum fyrir hinu mikla fylgistapi Kvennalista
á þessum árum hlýtur að koma í ljós að þær voru fyrst og fremst sú staðreynd að um
þær mundir voru stjórnmálaflokkar að verða til hér á landi og konur tóku að skipa
sér í flokka með sama hætti og karlar.
Efnislegar meinlokur koma líka fyrir í bókinni (133):
Þegar nýtt stjórnarskrárfrumvarp var samþykkt 1913 varð það ofan á . . . að konur og
hjú skyldu hafa náð fertugsaldri þegar þau fengju kosningarétt og kjörgengi. Síðan
skyldi markaldurinn lækka um eitt ár árlega þar til almennum kosningarétti yrði náð
en hann miðaðist þá við 25 ár. Bið þeirra yngstu gat því orðið 15 ár.
Hér er þess ekki gætt að biðtíminn styttist um ár í báða enda á hverju ári.
Kona sem var 25 ára árið 1915 (þegar lögin gengu í gildi) hefði orðið 33 ára
að átta árum liðnum, árið 1923, en þá hefði aldurstakmarkið verið komið
niður í 32 ár, ef reglan hefði gilt svo lengi.