Andvari - 01.01.1994, Qupperneq 142
140
HANNES HÓLMSTEINN GISSURARSON
ANDVARI
istaflokkar á Norðurlöndum eða í Bretlandi, svo að segja má, að hug-
myndafræðileg átök hafi verið harðari hér en þar. Sé litið á íslensk stjórn-
mál sem fyrirgreiðslustjórnmál, er Alþýðubandalagið talsvert frávik frá
kenningunni, svipað og erfitt er að koma Sjálfstæðisflokknum fyrir í þeirri
mynd af íslenskum stjórnmálum, að þau séu í eðli sínu stéttastjórnmál.
Raunar virðist sú gamla kenning þeirra Gunnars Helga og Svans, að ís-
lensk stjórnmál hafi breyst í stéttastjórnmál á tímabilinu 1916-1930, ekki í
fullu samræmi við þá kenningu þeirra í þessu riti, að íslensk stjórnmál séu
og hafi lengi verið fyrirgreiðslustjórnmál framar öðru. Getur ekki verið, að
veruleikinn sé miklu flóknari, stéttaskipting skipti einhverju máli um ís-
lensk stjórnmál, þau séu enn fremur að nokkru leyti fyrirgreiðslustjórnmál,
og stjórnmálaflokkarnir séu líka að einhverju leyti „skipulagðar skoðanir“,
svo að notuð sé skilgreining Benjamíns Disraelis?
Margt er fleira að athuga við greiningu þeirra Gunnars Helga og Svans.
Þeir gera til dæmis tveimur afdrifaríkum breytingum óveruleg skil, annars
vegar íslensku fjölmiðlabyltingunni, hins vegar upphafi sérstakrar stéttar
atvinnustjórnmálamanna. Sjónvarpið minnkaði mjög vald Morgunblaðsins
til skoðanamyndunar, eins og ég rek í bók minni, Fjölmiðlum nútímans;
stofnun DV hafði svipaðar afleiðingar. Með íslensku fjölmiðlabyltingunni
dró úr valdi flokkanna; en upphaf atvinnustjórnmálamannastéttarinnar
hafði þveröfug áhrif: Eftir að þingmenn urðu atvinnumenn í stjórnmálum
upp úr 1968 (eftir frægar deilur Bjarna Benediktssonar og Eysteins Jóns-
sonar á þingi), urðu þeir háðari flokkunum en áður um afkomu sína. Enn
fremur reyna þeir Svanur og Gunnar Helgi hvergi að leysa þversögn, sem
blasir við í bókinni: Annars vegar fullyrða þeir, að ríkisafskipti séu hér
meiri en víðast annars staðar; hins vegar kemur fram í ritgerðum Stefáns
Ólafssonar og Magnúsar S. Magnússonar, að ríkisútgjöld séu hér lægri en í
grannríkjunum. Báðar þessar fullyrðingar kunna að standast saman, en ein-
hverja grein hefði þurft að gera fyrir því, hvers vegna svo væri.
Þá virðist sú skoðun Svans (390. bls.), að stjórnmálaflokkarnir séu orðnir
úreltir, stangast á við ýmsar kannanir Stefáns Ólafssonar og Ólafs Þ. Harð-
arsonar fyrir Félagsvísindastofnun, en þær sýna furðu rökréttar stjórnmála-
skoðanir Islendinga og prýðilegt samræmi á milli þeirra og vals manna um
stjórnmálaflokka (þótt afstaða í einstökum deilumálum sé ekki alltaf í sam-
ræmi við yfirlýstar skoðanir þeirra eða val um flokka). Frásögn Svans af
viðbrögðum Sjálfstæðisflokksins við „kreppu flokksræðisins“ er líka óná-
kvæm. Það var ekki flokksforystan, sem stofnaði til prófkjara upp úr 1968 í
því skyni að efla flokkinn, heldur gerðist þetta að frumkvæði nokkurra
ungra manna í flokknum, sérstaklega Ellerts B. Schrams og Friðriks Soph-
ussonar, sem þá voru að hefja undirbúning að því að ryðja sér braut inn á
þing og sáu ekki aðrar leiðir til þess, þar eð þeir voru ekki í náðinni hjá