Andvari - 01.01.2004, Page 96
94
HJALTI HUGASON
ANDVARI
Dreymdi hann sig syngjandi
dýran frelsissöng,
fólkið sat og hlýddi á
und himinblárri spöng
- þá var ei til hjartastaða
leiðin löng.
Sté af rauðum kvalakrossi
á græna jörð niður
ungur smiður,
ungur, fátækur smiður
- fuglar kvökuðu á flugi sínu:
friður friður.
Blóði drifin vopnin
bráðnuðu eins og hjóm,
dýflissurnar opnuðust
við lúðurhljóm
og þar kom Sóley sólufegri
svífandi á kóralskóm.98
Vopnin sem bráðna minna á þau orð spámannsins Jesaja (2. kap. 4. v.) að
þjóðirnar muni „smíða plógjám úr sverðum sínum og sniðla úr spjótum
sínum“ og upp muni renna friðaröld. Hinar opnu dýflissur minna aftur á móti
á stórmerkin sem urðu við dauða Krists samkvæmt Mattesuarguðspjalli (27.
kap.) og lúðurhljómurinn vísar til Opinberunarbókar Jóhannesar og hinna
hinstu daga (8. kap.).
Framtíðarvonina, friðinn og þjóðfrelsið byggir Jóhannes í þessum kafla á
Kristi og verki hans. Hin nýja framtíð og þau stórmerki sem henni fylgja
byggist þó ekki á upprisu Krists eins og játað er í kristinni trú, heldur á því
að hinn mennski Kristur - ungi, fátæki smiðurinn - stígi niður af krossinum
og gerist sú þjóðfrelsishetja sem ýmsir samtímamenn hans höfðu vænst.
Framtíðarvon Jóhannesar úr Kötlum var því ekki bundin manninum einum,
einstaklingunum eða heildinni heldur var Kristur í þeirri mennsku, pólitísku
mynd sem skáldið gaf honum mikilvæg forsenda hennar. Framtíðarsýn
Jóhannesar var því alls ekki eins einföld og algerlega komin undir valdi
mannsins og Jóhann Hjálmarsson vildi vera láta.
Sóleyjarkvœði getur þannig talist mikill trúaróður, þó ekki sé í þröngri
kirkjulegri merkingu, en jafnframt gætir í því snarprar ádeilu á kirkjuna og
ýmsa þá sem játa kristni með vörunum. Kemur hún glöggt fram í áttunda
kafla. Þar víkur sögunni vestur til Bandaríkjanna - „guðs eigin lands“ - þar
sem forsetinn leggur á ráðin með marskálki sínum um það hvernig koma
megi í veg fyrir að Sóley næði að vekja riddarann og hann mætti að nýju
hefja að ærumeiða Bandaríkjamenn með „ódáinssöngvum“ sínum: