Tímarit lögfræðinga - 01.10.2004, Side 127
2.2.2 Gildissvið EES-samningsins og sjónarmið um túlkun hans
í þeim svörum sem íslensk stjórnvöld sendu til ESA í tilefni af formlegu
erindi og rökstuddu áliti stofnunarinnar var því m.a. haldið fram að málið
varðaði skattareglur sem féllu utan gildissviðs EES-samningsins. Þessi rök
komu ekki fram á ný í málflutningi íslands fyrir EFTA-dómstólnum. í upphafi
dómsins er á það bent að EES-samningurinn taki almennt ekki til skattkerfa
aðildarríkjanna en aðildarríkin verði þó að beita skattlagningarvaldi sínu í
samræmi við EES-rétt. Vísar EFTA-dómstóllinn til fyrri dóma sinna um þetta
efni.10
EFTA-dómstóllinn víkur því næst að einsleitnimarkmiði EES-samningsins
og tekur fram að það hafi staðfastlega haft áhrif á dómaframkvæmd EFTA-
dómstólsins.* 11 Um gildi dómafordæma EB-dómstólsins vísar EFTA-dómstóll-
inn til 6. gr. EES-samningsins þar sem fram kemur að EES-samninginn skuli
túlka í samræmi við fordæmi EB-dómstólsins, sem kveðnir voru upp fyrir
undirritunardag samningsins, og 3. gr. stofnanasamningsins þar sem fram
kemur að taka skuli tilhlýðilegt tillit til meginreglna sem fram koma í úrskurð-
um EB-dómstólsins eftir undirritunardaginn. Því til viðbótar vísar EFTA-dóm-
stóllinn til forúrskurðar EB-dómstólsins í málinu nr. C-452/01 Ospelt,12 Þar
kemur m.a. fram að í ljósi markmiðs EES-samningsins um að tryggja frelsi til
vöruflutninga, fólksflutninga, þjónustustarfsemi og fjármagnsflutninga, þannig
að innri markaður Evrópusambandsins nái til EFTA-ríkjanna, verði EB-dóm-
stóllinn að tryggja samræmda túlkun í aðildarríkjum sambandsins á reglum
EES-samningsins sem eru efnislega samhljóða Rómarsamningnum. Segja má
að með þessum inngangsorðum ítreki EFTA-dómstóllinn gildi markmiðstúlk-
unar við skýringu á reglum EES-samningsins13 og gefi tóninn sem fylgt er í
dóminum við skýringu á 36. gr. hans.
10 Sjá málsgrein 26 í dóminum. Er þar vísað til dóms EFTA-dómstólsins í málinu nr. E-6/98
Noregur gegn Eftirlitsstofnun EFTA, 1999, REC, 74, málsgrein 34 og í málinu nr. E-l/01 Hörður
Einarsson gegn íslandi, 2002, REC, 1, málsgrein 17.
Dómaframkvæmd EFTA-dómstólsins um þetta efni er í samræmi við dómaframkvæmd EB-
dómstólsins, sjá t.d. mál nr. C-311/97 Royal Bank ofScotland gegn Elliniko Dimosio, 1999, ECR
1-2651, málsgrein 19 og nr. C-136/00, Danner, 2002, ECR 1-8147, málsgrein 28.
11 Sjá málsgrein 27 í dóminum. Tekur dómstóllinn sem dæmi í þessu sambandi mál nr. E-9/97 Erla
María Sveinbjörnsdóttir gegn íslandi, 1998, REC, 95, málsgrein 49 og mál nr. E-6/01 CIBA gegn
Noregi, 2002, REC, 281, málsgrein 33.
12 Mál nr. C-452/01 Margarethe Ospelt gegn Schlössle Weissenberg Familienstiftung frá 23.
september 2003 (enn ekki birtur í ECR), málsgrein 29.
13 Sbr. t.d. þeir dómar sem vísað er til í neðanmálsgrein 11. Um beitingu EFTA-dómstólsins á 6.
gr. EES-samningsins og 2. mgr. 3. gr. stofnanasamningsins, sjá m.a.: Davíð Pór Björgvinsson:
„Þýðing fordæma dómstóls EB við framkvæmd og beitingu EES-samningsins“. Afmælisrit til
heiðurs Gunnari G. Schram sjötugum, 20. febrúar 2001, bls. 93-120.
421