Uppeldi og menntun - 01.01.2006, Side 67
67
hafa beitt í þessum tilgangi er að nota spurningalistakannanir á unglingum til þess að
smíða mælingar, bæði á stigi skólahverfisins (þ.e. á stigi grenndarsamfélagsins) og á
einstaklingsstiginu, og beita síðan sértækri tölfræðigreiningu við úrvinnslu gagnanna
(sjá Sampson og Groves, 1989; Sampson, Raudenbush og Earls, 1997). Þessi aðferð
hefur getið af sér fáeinar rannsóknir sem allar benda til þess að grenndarkenningar eigi
erindi við rannsóknir á áhættuþáttum í lífi íslenskra ungmenna (Jón Gunnar Bernburg
og Þórólfur Þórlindsson, 2004, 2005; Þóroddur Bjarnason, 2000; Þóroddur Bjarnason
o.fl., 2005; Þórólfur Þórlindsson og Jón Gunnar Bernburg, 2004; Þórólfur Þórlindsson,
Þóroddur Bjarnason og Inga Dóra Sigfúsdóttir, í prentun). Til að mynda hefur komið
í ljós að þéttni félagstengsla milli foreldra í skólahverfinu, það er að hve miklu leyti
foreldrar ungmenna í skólahverfinu þekkjast innbyrðis, hefur neikvætt samband við
áfengisneyslu ungmenna (frávik) en jákvætt samband við námsárangur (hefðbundin
markmið), að teknu tilliti til persónulegra tengsla ungmenna við foreldra og fjölda
annarra þátta (Þóroddur Bjarnason o.fl., 2005; Þórólfur Þórlindsson o.fl., í prentun). í
annarri rannsókn komust Þórólfur Þórlindsson og Jón Gunnar Bernburg (2004) að því
að mikil þátttaka í trúarstarfi meðal unglinga í grenndarsamfélaginu dregur úr líkum
á afbrotahegðun unglinga, að teknu tilliti til trúarþátttöku þeirra sjálfra (þ.e. þegar
trúarþátttöku þeirra sjálfra er stjórnað tölfræðilega).
Þessar nýlegu rannsóknir hafa þó allar einblínt á afmörkuð félagsgerðareinkenni á
grenndarsamfélaginu. Markmið með rannsókn okkar er að athuga með kerfisbundnari
hætti en áður hvaða þættir í félagslegri samsetningu grenndarsamfélagsins tengjast
frávikshegðun íslenskra unglinga. Rannsókn okkar byggist á spurningalistakönnun
sem lögð var fyrir íslenska unglinga á landinu öllu árið 1997. auk þess að skoða fylgni
félagsgerðareinkenna við umfang frávikshegðunar var sértækri tölfræðigreiningu
beitt til þess að einangra samhengisáhrif (e. contextual effect) félagsgerðareinkenna.
Þannig var skoðað hvort félagsgerðareinkenni skólahverfisins hafi tölfræðileg áhrif á
umfang frávikshegðunar í skólahverfinu, þegar tekið er tillit til þeirra áhrifa sem per-
sónulegar aðstæður unglinga hafa á frávikshegðun. Með öðrum orðum, hefur félags-
gerð skólahverfisins áhrif á frávikshegðun unglinga, burtséð frá félagslegum aðstæð-
um þeirra sjálfra?
KEnninGarlEG nálGUn
Kenningar um félagsgerð grenndarsamfélagsins hafa lengi verið félagsfræðingum
hugleiknar. Margir af upphafsmönnum félagsfræðinnar lögðu áherslu á að ekki nægði
að einblína á aðstæður einstaklingsins til þess að skýra félagsleg vandamál á borð
við frávikshegðun. Hér má nefna franska félagsfræðinginn Emile Durkheim og þýsku
félagsfræðingana Ferdinant Tönnies og Georg Simmel. Bandarískir félagsfræðingar
hófu þessar kenningar síðan til vegs og virðingar í byrjun tuttugustu aldar og áttu þær
stóran þátt í því að renna stoðum undir félagsfræði sem sjálfstæða fræðigrein.
Félagsfræðingar og afbrotafræðingar hafa löngum gert félagsgerð grenndarsam-
félagsins að umfjöllunarefni í rannsóknum á afbrotum. Sá kenningarskóli sem hæst
ber á þessu sviði er kenningin um félagslega óreiðu (e. social disorganization theory,
JÓn GUnnAR BERnBURG, ÞÓRÓLFUR ÞÓRLInDSSon