Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 50
48
SIGURÐUR E. GUÐMUNDSSON
ANDVARI
fyrir þátttöku flokksins í stjórninni. Auðvitað gat hann ekki komið
fram öllum sínum vilja á því sviði í einu vetfangi, en stefnan var
mörkuð. Þessi mikla kerfisbreyting í tryggingamálum þjóðarinnar var
bæði flókin og fjárfrek og að mótun hennar og framgangi vann Gylfi
af fullum krafti með Emil Jónssyni, félagsmálaráðherra. Er skemmst
frá því að segja, að heildarbætur almannatrygginganna tvöfölduðust
næstum í krónum talið og tekjuskattur á almennar launatekjur var lækk-
aður stórlega. Sem dæmi um breytingarnar má geta þess, að áður höfðu
fullar fjölskyldubætur ekki verið greiddar fyrr en með hálfu þriðja
barni (megi svo að orði komast), en nú skyldi greiða jafnháar bætur
með hverju barni, og það án tillits til búsetu. Greiðsla mæðralauna var
aukin mjög og aðrar lífeyrisbætur hækkaðar, til dæmis barnalífeyrir
(um 43%), ekknalífeyrir, ekknabætur, ellilífeyrir, fæðingarstyrkur (um
25%), slysabætur og örorkubætur.
Allt þetta var í fullkomnu samræmi við þær samfélagskenningar
Beveridge lávarðar árið 1942, að atvinnulíf og hagskipan landsmanna
yrði að vera traust í sessi, sem grundvöllur fyrir velferðarkerfið, svo að
þjóðin gæti búið við sem mest öryggi frá vöggu til grafar. En til við-
bótar við þessar umbætur í samfélagsmálum var það sérstakt áhugamál
Gylfa Þ. Gíslasonar að fá setta víðtæka löggjöf í mennta- og menning-
armálum og koma henni í framkvæmd.
Þegar ummæli hans um áætlunarbúskap og þjóðnýtingu í greina-
flokknum í Alþýðublaðinu 1947 eru höfð í huga og það jafnframt
rifjað upp, að Emil Jónsson, félagsmálaráðherra í viðreisnarstjórninni,
var lengst af formaður Skipulagsnefndar atvinnumála (1934-1936)50,
sem Stjórn hinna vinnandi stétta (samstjórn Framsóknarflokks og
Alþýðuflokks) skipaði til að endurskipuleggja atvinnulíf landsmanna, í
kjölfar kreppunnar 1929, leynir sér ekki hverrar ættar þær fyrirætlanir
voru, sem Olafur Thors, forsætisráðherra, fór um svofelldum orðum í
ræðu sinni á Alþingi hinn 20. nóvember 1959, er hann kynnti þinginu
stefnuskrá viðreisnarstjórnarinnar:
Ríkisstjórnin mun taka upp samningu þjóðhagsáætlana, er verði leiðarvísir
stjórnvalda og banka um markvissa stefnu í efnahagsmálum þjóðarinnar, beita
sér fyrir áframhaldandi uppbyggingu atvinnuveganna um land allt og undirbúa
nýjar framkvæmdir til hagnýtingar á náttúruauðlindum landsins.51
Agnar Kl. Jónsson lýsti þessari fyrirætlan á þá leið, að ríkisstjórnin
hafi ætlað „að semja þjóðhagsáætlanir um ákveðna stefnu í efnahags-