Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 191
ANDVARI
FRÁ BÖRNUM AMTMANNSINS Á EINBÚASETRINU
189
1873 og fyrri hluta árs 1874, svo að nam 8000 krónum í peningum og
skuldabréfum.
Hinn 1. október 1874 var kvennaskólinn settur í fyrsta sinn í húsi Páls
Melsteðs og Þóru við Austurvöll. Svo fátækur reyndist skólinn þrátt fyrir
þessa söfnun, að honum hefði ekki verið hleypt af stokkum, ef hann hefði
ekki hlotið tvo árlega styrki frá erlendum stofnunum, 200 kr. frá hvorum til
að byrja með. Þóra forstöðukona vann kauplaust fyrsta árið, og Páll kenndi
sögu, íslenzku og landafræði fyrstu fjögur árin endurgjaldslaust. Aðrar náms-
greinar voru danska, skrift, réttritun, reikningur og ýmsar hannyrðir, svo sem
klæða- og léreftssaumur, heklun og prjónaskapur. Kennsla, húsnæði, ljós og
hiti var ókeypis, en stúlkurnar kostuðu sig sjálfar að öðru leyti. Næstu árin
voru nemendur 10 sem fyrr.
í skólanum, sem Páll kom á fót, þegar hann bjó í Brekku, og áður er minnzt
á, kenndi hann veturinn 1841-1842 milli 20 og 30 piltum og stúlkum til gam-
ans sér og gagns þeim, er nutu. Kennslan var rómuð. Bóklega kennslan hjá
Páli, einkum sögukennsla hans við latínuskólann og kvennaskólann, tók ann-
arri bóklegri kennslu fram. Jón Olafsson skáld og ritstjóri komst svo að orði í
endurminningum sínum: „Pál þekkja allir, svo að ég þarf ekki að fjölyrða um
hann; hann var ið mesta ljúfmenni, margfróður, sífjörugur og sískemtilegur,
orðheppinn og fyndinn með afbrigðum.“68
Fyrir hugskotssjónum Páls stóðu sögupersónur ljóslifandi, og atburðir horf-
ins tíma fengu lit og líf. Hann hreif nemendur með sér inn á lendur horfinna
atburða. Páll skrifar í Endurminníngum sínum:
Það á svo vel við mig að kenna, að þó eg hafi farið lasinn upp í skólann og í „kathedruna",
þá hefir öll vesöld og öll þreyta farið úr mér í tímanum. ... Mér liggur við að segja: eg
er fyrst kominn til sjálfs mín, þegar eg er búinn að kenna 2-3 tíma. Þetta er ekki raup,
þetta er satt, það er ekki mér að þakka, sona er eg gerður, sona er mitt eðli.69
Á þessum tíma var mikið djúp staðfest milli nemenda og kennara. Páll brúaði
bilið, varð sem einn af hópnum.
IX
Um stofnun og starfrækslu Kvennaskólans í Reykjavík spunnust deilur, eins
og áður segir, rétt eins og um önnur þjóðþrifamál, og sýndist sitt hverjum.
Páll varð til andsvara af skólans hálfu. Má nokkuð fræðast um þetta af blöð-
unum Víkverja og íslendingi. Þótt ekki blési alltaf byrlega, varð aðsókn að
skólanum ágæt, er frá leið, og komust færri stúlkur að en vildu. Páli Melsteð
skal gefið orðið: