Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 126
124
DAGNÝ KRISTJÁNSDÓTTIR
ANDVARI
Oft hefur ljóðlist Steins Steinars verið kennd við tilvistarstefnu Jean Paul
Sartre. Það gerir Silja Aðalsteinsdóttir meðal annars í grein sinni um Stein í
Skírni 1981. í meginriti sínu Verunni og neindinni fjallar Sartre um neikvæðn-
ina sem liggur til grundvallar baráttunni fyrir merkingu. Hann segir: „Tómið
hefur hringað sig saman í hjarta verunnar eins og ormur“.9 Á þennan hátt hefur
„tómið“ verið tekið inn í hugveruna eins og Sartre hugsar sér hana og hvað eftir
annað dregur hann upp mynd af harðvítugri baráttu verunnar gegn neindinni
sem hann vill að við vitum af en verjumst með ráðum og dáð. Sá sem ekki notar
frelsi sitt til þess er „í vondri trú“.
Það eru ákveðin líkindi milli tilvistarstefnunnar og þunglyndisins sem
áður var lýst, hvort tveggja býr yfir innsæi í þann aðskilnað og missi sem
liggur sjálfsverunni til grundvallar. En viðbrögðin við þessu innsæi eru ólík.
Sá þunglyndi lifir í missi sínum og neitar að gera hann fjarlægan með því að
tala um hann. Sá þunglyndi trúir ekki á táknið, tungumálið. Hann afneitar því
ekki aðeins einu sinni, hann afneitar því tvisvar. Hann viðurkennir ekki missi
sinn og afneitar því að hann hafi fengið tungumálið sem uppbót fyrir eitthvað
sem hann hafi aldrei misst. Hinn þunglyndi getur talað mikið og hlegið hátt
en orðræða hans kemur oft upp um sig af því að það vantar í hana dýpt og
hófstillingu og sátt, hún sveiflast eins og vanstilltur taktmælir, gengur of hratt
eða of hægt, hinn þunglyndi hefur tilhneigingu til að segja „alltaf færri og
færri orð“.10 Og við sjáum þá tilhneigingu vaxa hjá Steini frá bók til bókar.
í Ferd án fyrirheits eru ljóð sem ekki eru aðeins byggð upp kringum
þversagnir heldur tvöfalda þau neitunina eins og í ljóðinu Tveir skuggar sem
endar svo:
Ég horfði daglangt út um opinn glugga,
og fjarlæg rödd mér barst með blænum inn:
Þú, sem ert hér, skalt hverfa í heimsins skugga,
og heimurinn skal hverfa í skugga þinn.
Þú hverfur í skugga heimsins og heimurinn hverfur í skugga þinn. Hvað ger-
ist? Svarið er: ekkert. Ekkert hefur gerst. Þetta er tilbrigði við stílbragð sem
heitir „chiasmus“ eða krossbragð og byggist á því að a verður b og b verður
a, en það stílbragð kemur nokkuð oft fyrir í biblíumáli og við þekkjum orðs-
kviði komna þaðan eins og: „Og margir verða þeir seinastir sem eru fyrstir
og þeir fyrstir sem seinastir eru.“n í dæmi Steins hnykkir endurtekningin
ekki á fyrri fullyrðingunni eins og í biblíudæminu heldur afneitar henni og
tekur hana aftur: Þú sem ert hér, skalt hverfa í heimsins skugga, og heim-
urinn skal hverfa í skugga þinn. Annað dæmi um þetta er í ljóðinu Ástinni
og dauðanum: