Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 139
ANDVARI
HAMLET ÍSLENSKRAR LEIKLISTAR?
137
Önnur tilfinnanleg eyða í bókinni snýr að útvarpsvinnu Lárusar. í bókarlok
er birt skrá yfir hana, leikstjórnarverkefni, hlutverk og þýðingar, og er hún
mikil að vöxtum, átta síður að lengd. Má til samanburðar geta þess, að skráin
yfir leiksviðsverk Lárusar, hlutverk og sýningar, er um sex blaðsíður að lengd,
og er ég þá að tala um vinnu hans eftir heimkomuna 1940. Þetta er auðvitað
lofsvert, en þá hlýtur maður að spyrja sig, hvers vegna höfundur notar þessar
skrár sínar svo til ekki neitt og sleppir því nánast alveg að ræða þennan stóra
þátt í lífsstarfi Lárusar. Skrár eru væntanlega ekki upp á punt, eða hvað? Ekki
hefur Þorvaldur, svo séð verði, ómakað sig að hlusta á aðrar útvarpsupptökur
en Galdra-Loft (1947) og Hamlet (1954), en fer þó varlega í að leggja á þær
eigið mat.23 Þetta er að vísu ekki auðvelt efni viðfangs, því að lítið sem ekkert
var fjallað um útvarpsleikritin í blöðum eða tímaritum samtíðarinnar. Engu
að síður hefði verið fróðlegt að vita hvers konar leikrit Lárus fékkst helst við
og hvort greina megi eitthvert samhengi milli þeirra og þeirra verka sem hann
setti á svið í leikhúsunum. Alltént hefði mátt spyrja þeirrar spurningar, þó að
svörin hefðu svo sem einnig mátt vera í spurnarformi. Enginn getur ætlast
til að ævisöguritari, sem er að fjalla um efni sem fáir hafa litið á áður, reyni
að gera öllu tæmandi skil, en allt verður að skoða í sínu rétta samhengi og
umfangið eitt sýnir að útvarpsvinnan var alls engin lítilfjörleg aukageta með
öðrum störfum Lárusar.
Hversu merkur leikstjóri var Lárus Pálsson?
íslenskar leiklistarsögurannsóknir eru enn ekki miklar að vöxtum. Sá tími,
sem hefur til þessa verið best rannsakaður, eru fyrstu árin í sögu L.R., frá
stofnun þess árið 1897 fram yfir 1920, þegar kynslóðaskipti verða í félaginu.
Þá er ég vitaskuld fyrst og fremst að vísa í rannsóknir Sveins Einarssonar
og mínar, en báðir nutum við góðs af heimildasöfnun og skrám Lárusar
Sigurbjörnssonar. Einnig er skylt að minnast á sögurit þeirra Þórunnar
Valdimarsdóttur og Eggerts Þórs Bernharðssonar, Leikfélag Reykjavíkur -
Aldarsaga. Þorvaldur Kristinsson vitnar hvergi til þeirrar bókar, getur hennar
ekki í heimildaskrá aukinheldur meir. Er þó engin leið að trúa því að hann
hafi ekki eitthvað skoðað hana, líkt og þau rit sem ég nefndi hér á undan. En
ég á raunar bágt með að áfellast hann, þó að hann hafi ekki sótt mikið til
hennar, jafn gölluð og hún er.24
Haraldur Björnsson segir í sjálfsævisögu sinni, Sá svarti senuþjófur, að
nieð Lárusi Pálssyni hafi komið ferskur blær inn í leiklistina. „Hann stóð
utan við allar þær deilur sem staðið höfðu innan leikarastéttarinnar ... var
laus við alla fordóma og tilhneigingu til flokkadrátta og hugsaði aðeins um
arangur á sviðinu.“25 Allt er þetta án nokkurs vafa rétt og satt. En í hverju fólst