Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 150
148
JÓN VIÐAR JÓNSSON
ANDVARI
höndum annars stjórnanda.58 Kveðst Brynjólfur Jóhannesson hafa lagt það til
við ráðherra, að sú leið yrði farin, en ráðherra hafi hafnað því, þar sem hann
taldi fullvíst að Guðlaugur yrði því ekki samþykkur.59
Um alla þessa málsmeðferð hefur Þorvaldur þau orð, að „hagsmunir ein-
stakra stjórnmálaafla“ hafi tekið „að lita málið öðrum og persónulegri lit-
um“.60 Hér sveigir hann að þeirri alkunnu staðreynd, að Guðlaugur var mjög
handgenginn Eysteini Jónssyni. Guðlaugur hafði hvorki menntun né reynslu á
sviði leiklistar, en var kunnur að dugnaði og framkvæmdasemi í ýmsum störf-
um sem hann hafði tekið að sér, bæði sem formaður Norræna félagsins og sem
fulltrúi Framsóknarflokks í opinberum nefndum, svo sem undirbúningsnefnd
Lýðveldishátíðar og nefnd um Snorrahátíð. í endurminningum sínum ræðir
Guðlaugur þennan aðdraganda og segir m.a. frá því hvernig ráðningu sína bar
að. Skiptir sú frásögn ekki máli hér, enda er hún eðlilega sögumanni hagstæð.
Mér finnst einungis rétt að benda á, að Þorvaldur kann að vera full skjótur til
að taka afstöðu með þeim Lárusi og Þorsteini Ö. sem eðlilega hugnaðist ekki
þessi þróun. Að sjálfsögðu var fyrri nefndin nákvæmlega jafn pólitísk og hin
síðari, ef nokkuð er enn pólitískari, því að tveir nefndarmanna, Þorsteinn og
Halldór Laxness, voru yfirlýstir sósíalistar. Flokkapólitískt var skipan síðari
nefndarinnar mun breiðari. Þar var hins vegar enginn leikhúsmaður, heldur
einungis fulltrúar flokkavaldsins.
Það fer vart á milli mála, að stjórnvöld léku hér ákveðinn hráskinnaleik
með leikara. Stjórnmálaforingjar, aðrir en sósíalistar, vildu einfaldlega ekki,
að leikarar kæmu nærri því að móta stjórnskipan og rekstur leikhússins nýja,
hvað þá að stjórna því, þegar til þess kæmi. Til þess kunna þeir að hafa haft
sínar ástæður, ekki aðeins pólitískar, svo sem hræðslu við ítök kommúnista.
Það er ugglaust rétt, sem Brynjólfur ýjar að, að menn óttuðust að leikarar
yrðu of stórhuga, tillögur þeirra of kostnaðarsamar. En menn vissu einnig
hvernig ástandið hafði verið innan leikhússins. í því Ijósi er vel skiljanlegt,
að stjórnvöld hafi talið farsælast að fá einhvern utan þess til að stýra hinni
nýju stofnun og virðast framsóknar-, sjálfstæðis- og alþýðuflokksmenn hafa
verið á eitt sáttir um það. Það er heldur engin ástæða til að halda að menn
hafi ekki gert sér grein fyrir ókostum Guðlaugs, þekkingarleysi sem hann átti
til að koma upp um með óheppilegum ummælum, að ekki sé sagt aulaskap.
Hefur skipan Vilhjálms Þ. Gíslasonar sem bókmenntaráðunautar vafalaust átt
að vega upp á móti því, auk þess sem sérstök verkefnavalsnefnd var skipuð
undir forystu Vilhjálms. Þannig má segja að ákveðnu tvímenningsveldi hafi
verið komið á, líkt og leikarar höfðu lagt til, eftir að sýnt var að ráðherra
hafði gert upp hug sinn. Hitt er svo annað mál, að naumast hefur Vilhjálmur
Þ. verið atkvæðamikill í sínu hlutverki, enda skólastjóri Verslunarskólans um
þessar mundir og útvarpsstjóri frá 1953 til 1967. Öll þau ár gegndi hann þó
fyrrgreindum störfum í Þjóðleikhúsinu.