Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 67
andvari
GYLFI Þ. GÍSLASON
65
flokkspólitískra tengsla þeirra. Það er engum vafa undirorpið, að þar
tók hann réttan pól í hæðina vegna þeirrar forystu, sem þeir fóru með
í landsstjórninni, í stærsta stjórnarflokknum og þingflokki hans. Ef til
vill má segja, að með því hafi hann hálfvegis gengið fram hjá starfs-
bróður sínum í danska menntamálaráðuneytinu, en bæði brýtur nauð-
syn lög og eins hitt, að málið var svo stórt og þýðingarmikið fyrir löndin
tvö, að eðlilegt og nauðsynlegt var að semja um það milliliðalaust við
forsætisráðherrann.
Gylfi var sífellt á ferðinni á þessum árum og notaði fjölmörg
tækifæri til að ræða handritamálið við hlutaðeigandi forystumenn í
dönskum stjórnmálum, hvar sem hann hitti þá. Það var ekki lauslegt
tilviljunarkennt spjall hverju sinni, heldur formlegur eða óformlegur
viðræðufundur, þar sem afhending handritanna var til umræðu. Hvorki
danskir andstæðingar hennar eða þarlendir fjölmiðlar gátu með nokkru
móti hent reiður á hvar hann var niðurkominn hverju sinni, í samtölum
og samningaviðræðum við danska stjórnmálaforingja. Og því síður gátu
þeir fylgzt með öllum þeim símtölum, skoðanaskiptum, minnisblöðum
og drögum að tillögum, er gengu milli þeirra. Þessar aðstæður gerðu
bonum auðvitað margfalt hægara um vik að vinna að framgangi máls-
ins. Þeir áttu hins vegar allt annað en auðvelt með að beita sér eftir að
þeir áttuðu sig loks á þeirri grundvallarbreytingu á málsmeðferðinni,
sem orðið hafði. Og smám saman tókst að þoka málinu áfram, rétt eins
°g dropinn holar steininn. Ekki svo að skilja, að málstaður Islands hafi
ekki notið mikillar samúðar og velvildar meðal fjölda leiðandi manna
°g almennings í Danmörku. En vandinn var að breyta þeim hagstæðu
viðhorfum í endanlega niðurstöðu. Til þess þurfti töfrasprota hins
þrautreynda samningamanns, með lífsreynslu úr heimi stjórnmálanna.
Gylfi Þ. Gíslason reyndist hafa hann í hendi.
Það var auðvitað mikils virði í öllu þessu samningaferli, er stóð árum
saman, að enginn ágreiningur kom nokkru sinni upp meðal íslendinga
um þá meginkröfu að handritin skyldu koma heim. A Alþingi voru allir
á einu máli og Gylfa hefur auðvitað verið mikill stuðningur að því.
En honum var líka Ijós nauðsyn þess, að hafa náið samráð við merka
fræðimenn í landinu, sem væru meðal fremstu áhrifamanna og helztu
ráðgjafa stjórnmálaflokkanna á þessu sviði. Því fékk hann sérstaka
trúnaðarnefnd þeirra setta á laggirnar, er skipuð var þeim Alexander
Jóhannessyni, Sigurði Ólasyni, Kristni E. Andréssyni og Stefáni
Pjeturssyni, sem og Einari Ól. Sveinssyni, er ráðherra skipaði formann