Andvari - 01.01.2009, Blaðsíða 186
184
KRISTMUNDUR BJARNASON
ANDVARI
iðkuðu öll ljóðagerð, systkinin. Það vakti furðu Emilíu, hve Jón hafði reynzt
liðtækur á þá grein. Hann fór svo dult með, að hún hafði ekki gert sér í hug-
arlund, hve mikið þetta var að vöxtum.
Nú er óvíst, hve miklu var brennt. Emilía komst líka að því við lesturinn,
að Grími tengdaföður hennar var lítið gefið um þessar launhelgar barnanna,
að þau „dröbbuðu í skáldskap“, eins og Ingibjörg systir hans komst að orði um
son sinn Grím forðum.
Það hvarflaði að Emilíu að flytjast til Reykjavíkur. Þóra og Páll sögðu hana
velkomna til sín. Þegar til kom, treystist hún ekki til að rífa sig upp.
Emilíu var ljúft að rifja upp atvik, þar sem þau hjón sýndu sjálfsafneitun,
svo sem þegar þau ætluðu burt í orlof að ráði læknis sumarið 1879. Þá kom
Tryggvi Gunnarsson kaupstjóri til þeirra hjóna og fór fram á, að þau yrðu
við beiðni síra Björns Halldórssonar í Laufási um „að taka við dóttur próf-
astsins.“ Þau hættu við förina, því að Jón vildi gjarna verða „þessum sönnu
íslendingum“ að liði, eins og hann orðaði það. Hér mun hafa verið um að
ræða Laufeyju, dóttur Björns, sem lézt tveim árum síðar (1881). Emilía hafði
líka reynzt Halldóru Þorsteinsdóttur, konu Tryggva Gunnarssonar, vinur í
raun, er hún lá banaleguna á sjúkrahúsi í Höfn 1875, aðeins 36 ára gömul, en
Tryggvi var þá sjálfur langt leiddur af heimakomu. Svo mætti lengi telja. Þau
hjón voru samhent í þessu. Grímur amtmaður hafði kvartað undan því að geta
ekki verið snauðum og vesölum það, sem hugur hans stóð til, fátæktar vegna.
Jón sonur hans reyndi að bæta úr því á marga lund. Hjónin höfðu oftast eða
alltaf íslenzka „húshjálp“ og reyndust stúlkum sínum vel. Gaman þótti þeim
að halda brúðkaupsveizlur skjólstæðinga sinna.56
Bréfasafn Jóns varð Emilíu sífelld dægrastytting milli þess sem gestir
komu. Minningar flæddu upp í hugann við lesturinn. Hún skrifaði Þóru og
spurði um hitt og þetta, sem minnzt var á í gömlum fjölskyldubréfum. Hún
veltir fyrir sér ýmsu, sem þar ber á góma.
Jón hafði ágæta kímnigáfu og var ræðinn og skemmtinn í sinn hóp. Emilía
hélt helzt, að kímnigáfuna hefði hann þó ekki hlotið í vöggugjöf. Hún væri
áunnin, og hún spurði Þóru. Óvíst er um svar, þar eð bréf hennar voru
brennd.
Nú reyndist Emilíu þörf á að hafa sem flesta í kringum sig á daginn, annars
átti hún á hættu að verða kjarkleysi að bráð, gráta sig í svefn á kvöldin. Oft
varð bréfasafnið til að eyða tómleika, er greip hana.
Emilía skrifar Þóru, að hún viti ekki af hvers konar völdum það er, að
hún verður alltaf svo „undarlega hrærð“, er hún les bréf tengdaföður síns til
barnanna; kjarninn í þeim öllum sé djúp og heit ást til þeirra:
Öll bréfin hans hræra mig svo djúpt. Sá, sem ber slíka ást til barna sinna, er þess virði,
að fyrir hann séu færðar miklar fórnir. Og svo öll einsemdin þar norður frá ... Og rétt